Handtekinn með skotvopn á hóteli

Lögreglan að störfum í Texas. Mynd úr safni.
Lögreglan að störfum í Texas. Mynd úr safni. AFP

Lögregluyfirvöld í Houston í Texas segjast hafa handtekið ófriðsaman mann með fjölda skotvopna í vörslum sínum. Maðurinn var gestur á hóteli í háhýsi þar sem fram undan er mikill nýársfögnuður.

Handtakan hefur vakið ótta um aðra skotárás líka þeirri sem átti sér stað 31. október í Las Vegas, þar sem maður hóf skothríð á tónleikagesti ofan úr hótelbergi sínu og myrti þannig 58 manns og særði hundruð til viðbótar.

Lögreglan í Houston segir enn ekki ljóst hvort maðurinn hafi haft illt í hyggju. Nafn hans hefur þá ekki verið opinberað.

Mikið magn skotfæra

Talsmaður lögreglunnar segir hana hafa svarað útkalli í Hyatt Regency-hótelinu skömmu eftir miðnætti til að eiga við drukkinn mann sem látið hefði ófriðlega.

Þegar lögreglufulltrúar hugðust fylgja honum aftur til vistarvera sinna fundu þeir „nokkrar byssur“, að sögn talsmannsins. Fréttamiðlar vestanhafs segja að um sé að ræða hálfsjálfvirkan riffil af gerðinni AR-15, haglabyssu og skammbyssu, ásamt miklu magni skotfæra.

Skotárásin í Las Vegas fyrir réttum tveimur mánuðum var sú banvænasta í nútímasögu Bandaríkjanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert