Reynir að stöðva útgáfu bókar um sig

Donald Trump virðist vera mikið í mun að stöðva útgáfu …
Donald Trump virðist vera mikið í mun að stöðva útgáfu bókar Michael Wolff um forsetann og lífið á bak við tjöldin í Hvíta húsinu. AFP

Lögmenn Donalds Trumps, Bandaríkjaforseta, reyna nú að koma í veg fyrir að bókin Fire and Fury: Inside the Trump White House, komi út.

Bókin, sem er skrifuð af fjölmiðlamanninum Michael Wolff, hefur nú þegar valdið taugatitringi í Hvíta húsinu, eftir að Stephen Bannon, fyrrverandi ráðgjafi forsetans, líkti fundi sonar Trumps með rússneskum embættismönnum í kosningabaráttunni við landráð. Trump brást við eins og honum einum er lagið og sagði einfaldlega að Bannon væri búin að missa vitið.

Frétt mbl.is: Trump segir Bannon hafa misst vitið

Washington Post greinir frá því að Wolff hafi borist bréf frá lögfræðingum Trumps þar sem segir meðal annars að ef bókin verði gefin út megi Wolff átt von á málsókn vegna meiðyrða. Forlagið sem gefur bókina út hefur fengið sams konar bréf.

Lögmenn Trumps krefjast þess að hætt verði við útgáfu bókarinnar og að þeir fái eintak af henni á meðan rannsókn þeirra standi yfir. Þá krefjast þeir einnig að textabrotum úr bókinni verði ekki dreift, eins og gerst hefur nú þegar.

Frétt mbl.is: Tíu eldfimar afhjúpanir um Trump

Fyrr í dag barst Bannon bréf frá lögfræðingum Trumps þar sem hann er sagður hafa brotið gegn þagnareiði sem hann skrifaði und­ir í starfi sínu. Það liggur því ljóst við að Trump er staðráðinn í að koma í veg fyrir að útgáfa bókarinnar um líf hans í Hvíta húsinu komi fyrir sjónir almennings.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert