Barnaníðingur dæmdur í Lundi

www.norden.org

Svíi var í dag dæmdur í tveggja og hálfs árs fangelsi fyrir barnaníð. Upp komst um manninn þegar starfsmaður járnbrautarfyrirtækis í Landskrona tilkynnti um óeðlilega hegðun mannsins í garð barns.

Maðurinn var í morgun dæmdur í héraðsdómi í Lundi fyrir vörslu barnaníðsefnis og að hafa nauðgað barni.

Maðurinn viðurkenndi við réttarhöldin að hafa nauðgað barni í desember 2016 en sagði að fórnarlambið væri ekki sjö ára gamli drengurinn sem hann var gripinn með í september í fyrra heldur allt annar og óþekktur drengur. Á það féllst dómurinn ekki.

Við lögreglurannsókn kom í ljós að maðurinn hafði í langan tíma gætt drengsins um helgar þegar móðir hans var í vinnu. Drengurinn hafði jafnvel gist heima hjá honum en maðurinn hefur áður verið dæmdur fyrir kynferðislegt ofbeldi gagnvart börnum.

Í september var maðurinn handtekinn á lestarstöðinni í Landskrona. Maðurinn var um borð í lest á leið til Malmö með drengnum þegar farþegar um borð í lestinni tóku eftir því hvað drengnum leið illa og létu lestarstarfsmenn vita. Farþegarnir sögðu að drengurinn virtist ekki þekkja manninn og hann hafi verið hágrátandi og kallað á mömmu sína.

Þegar lestin stoppaði í Landskrona fór maðurinn með drenginn frá borði en lestarstarfsmaður elti og náði að stöðva þá. Lögreglan handtók manninn í kjölfarið.

Frétt Aftonbladet

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert