Mikill viðbúnaður í Brussel

AFP

Mikill viðbúnaður er í Belgíu í dag en réttarhöld eru að hefjast yfir Salah Abdeslam í Brussel. Abdeslam, sem er 28 ára gamall, er eini árásarmaðurinn sem er á lífi eftir árásina í París 2015.

Löng lest lögreglubíla er nú á leið með Abdeslam til Brussel en hann situr í fangelsi skammt fyrir utan París. Hundruð vopnaðra lögreglumanna og hermanna munu standa vörð við dómshúsið meðan á réttarhöldunum stendur.

Salah Abdeslam.
Salah Abdeslam. AFP

Abdeslam, sem er Belgi fæddur í Frakklandi, er ákærður fyrir að hafa reynt að drepa nokkra lögreglumenn sem tóku þátt í aðgerðum þegar hann var handtekinn í Brussel 15. mars 2016. Hann er jafnframt ákærður fyrir ólöglegan vopnaburð. Þrír lögreglumenn særðust í skotbardaganum og félagi Abdeslam var skotinn til bana. 

Abdeslam var handtekinn ásamt Túnisbúa, Sofiane Ayari, 24 ára, og eiga þeir yfir höfði sér allt að 40 ára fangelsisdóm verði þeir fundnir sekir.

Aðeins forleikur að því sem koma kann

Rérttarhöldin í dag eru aftur á móti aðeins forleikur að því sem bíður hans í franska réttarkerfinu en Abdeslam er sakaður um að hafa tekið þátt í árás sem kostaði 130 manns lífið í París fjórum mánuðum fyrir handtökuna í Brussel. 

Abdeslam hefur neitað að tjá sig við rannsókn málsins þessi tæpu tvö ár sem eru liðin frá handtöku hans. Hann krafðist þess aftur á móti að vera viðstaddur réttarhöldin í Brussel en gert er ráð fyrir að þau standi í fjóra daga. Er þess beðið með mikilli eftirvæntingu hvort hann rjúfi þögn sína þar. 

Ríkissaksóknari Belgíu, Frederic Van Leeuw, segir mikilvægt fyrir fórnarlömb árásanna að fá upplýsingar um hvað gerðist áður en árásirnar í París og síðar Brussel voru framdar. 

Mikil áhersla er lögð á að gæta fyllsta öryggis í kringum réttarhöldin og flutning fangans milli landa á hverjum degi. Lögregla og her í ríkjunum tveimur taka sameiginlega þátt í þessum aðgerðum og er ekki upplýst um hvort fanginn er fluttur í bíl eða þyrlu milli Vendin-le-Vieil-fangelsisins í norðurhluta Frakklands og dómshússins í Brussel.

Talið er að ástæðan fyrir því að hryðjuverkahópurinn lét til skarar skríða í Brussel 22. mars 2016 á flugvellinum í borginni og á lestarstöðvum hafi verið sú að Abdeslam var handtekinn nokkrum dögum fyrr. Talið er að sami hópur, sem tengdist Ríki íslams, hafi staðið á bak við árásirnar í París og Brussel.

Abdeslam hefur undanfarna 20 mánuði verið í einangrun þar sem fylgst er með honum allan sólarhringinn í Fleury-Merogis-fangelsinu fyrir utan París.

Þeir Abdeslam og Ayari voru handteknir í íbúð í Forest-hverfinu í Brussel en sá þriðji,  Mohamed Belkaid, 33 ára Alsírbúi, lést í aðgerðunum.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert