Sakfelldur fyrir morðin í gyðingasafninu

Teikning úr dómsalnum af Mehdi Nemmouch og formanni réttarins, Laurence …
Teikning úr dómsalnum af Mehdi Nemmouch og formanni réttarins, Laurence Massart. AFP

Franski vígamaðurinn Mehdi Nemmouche var í dag sakfelldur fyrir að hafa skotið fjóra til bana á gyðinga­safn­inu í Brus­sel 24. maí 2014. Árás­in markaði upp­haf hryðju­verka­árása öfga­manna tengd­um víga­sam­tök­un­um Ríki íslams í Evr­ópu.

Nemmouche, sem er 33 ára, skaut fyrst úr skamm­byssu og síðan sjálf­virk­um riffli og lét­ust tveir ísra­elsk­ir ferðamenn, Frakki og belg­ísk­ur af­greiðslumaður í gyðinga­safn­inu.

BBC segir mann, sem aðstoðaði Nemmouche við skipulagningu árásarinnar, Nacer Bendrer, einnig hafa verið fundinn sekan um morð.

Greint verður frá því við dómsuppkvaðningu síðar hversu langir dómarnir yfir þeim verða.

Lögðu fram flóknar samsæriskenningar

Réttarhöldin tóku tæpa tvo mánuði og reyndu lögfræðingar Nemmouche að sannfæra dóminn um að sök hefði verið komið á hann með flóknum samsæriskenningum þar sem erlendum leyniþjónustustofnunum var kennt um morðin. Þeir lögðu þó engar sannanir fram máli sínu til stuðnings.

Nemmouche, sem er fædd­ur í franska bæn­um Rou­baix, á als­írska for­eldra. Hann var hand­tek­inn í frönsku hafn­ar­borg­inni Marseille sex dög­um eft­ir árás­ina en þangað kom hann með rútu frá Brus­sel. Að sögn lög­reglu var hann með vopn­in sem hann beitti í árás­inni á sér þegar hann var hand­tek­inn við kom­una til Marseille.

Að sögn sak­sókn­ara barðist hann með sveit víga­sam­tak­anna í Sýr­landi frá 2013 til 2014 en þar kynnt­ist hann Najim Laachra­oui, fé­laga í glæpa­geng­inu sem stóð á bak við sjálfs­vígs­árás­irn­ar í Brus­sel 22. mars 2016. 32 lét­ust í þeim árás­um.  

mbl.is