Talinn hafa verið fangavörður í Sýrlandi

Mehdi Nemmouche.
Mehdi Nemmouche. AFP

Franski vígamaðurinn Mehdi Nemmouche hefur verið framseldur frá Belgíu til Frakklands þar sem hann er yfirheyrður vegna aðild að ráni á fjórum blaðamönnum í Sýrlandi árið 2013. 

Mehdi Nemmouche, sem er 34 ára gamall, var dæmdur í lífstíðarfangelsi í Belgíu í mars fyrir að hafa drepið fjórar manneskjur á gyðingasafninu í Brussel árið 2014. Árás­in markaði upp­haf hryðju­verka­árása öfga­manna tengd­um víga­sam­tök­un­um Ríki íslams í Evr­ópu. 

Nemmouche  skaut til bana tvo ísraelska ferðamenn, franskan sjálfboðaliða og ungan belgískan starfsmann safnsins. Þegar hann framdi árásina, 24. maí 2014, var hann nýlega komin frá Sýrlandi þar sem hann starfaði með vígasamtökunum Ríki íslams. Hann er sakaður um að hafa þar verið fangavörður fjögurra franskra blaðamanna sem voru teknir í gíslingu af vígamönnum í Aleppo árið 2013. 

Við réttarhöldin í Brussel báru tveir blaðamannanna vitni um að enginn efi væri í þeirra huga um að Nemmouche væri einn af fangavörðunum. Hann var færður í Meaux-Chauconin fangelsið austur af París á miðvikudag. 

Nemmouche og félagi hans, Nacer Bendrer, sem einnig tók þátt í hryðjuverkaárásinni á gyðingasafninu, munu báðir afplána dóma sína í Frakklandi.

Blaðamönnunum var haldið föngnum af Ríki íslams í Aleppo í 13 mánuði áður en þeir voru látnir lausir í apríl 2014. En þá höfðu þeir verið skildir eftir í einskinsmannslandi á milli Sýrlands og Tyrklands, með bundið fyrir augum og bundnir á höndum.

Nicolas Henin, einn blaðamannanna, lýsti Nemmouche síðar í tímaritsviðtali sem sjálfhverfum draumóramanni sem að loksins fann leið í gegnum vígasamtökin til þess að fullnægja þörf hans fyrir athygli. Ungur siðspilltur maður, sagði Henin í meðal annars í viðtalinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert