Óttast um sænskan útgefanda

Angela Gui óttast um föður sinn sem ekkert hefur spurst …
Angela Gui óttast um föður sinn sem ekkert hefur spurst til frá því hann var handtekinn í Kína 20. janúar. AFP

Dóttir sænska bókaútgefandans, Gui Minhai sem var handtekinn í Kína í síðasta mánuði, óttast um afdrif hans og hvetur alþjóðasamfélagið til að grípa inn.

Gui var handtekinn í lest á leið til Peking fyrir tveimur vikum  en hann var þar á ferðalagi ásamt tveimur sænskum stjórnarerindrekum. Þetta er í annað skiptið sem hann er handtekinn af kínverskum yfirvöldum.

Dóttir hans, Angela Gui, segir í samtali við AFP-fréttastofuna að hún hafi ekkert heyrt frá föður sínum eða heldur hvar honum sé haldið. Hún býr í Englandi þar sem hún er við nám.

Bæði bandarísk yfirvöld og Evrópusambandið hafa krafist þess að Gui verði látinn laus og handtakan hefur reynt mjög á stjórnmálasamband Svíþjóðar og Kína. 

Kínversk yfirvöld neita hins vegar að veita nokkrar upplýsingar um mál hans. Aðeins að sænskir diplómatar hafi gerst brotlegir við kínversk lög. 

Borgaraleg réttindi hafa átt undir högg að sækja frá því Xi Jinping tók við embætti forseta í Kína árið 2012 og eru hundruð lögmanna og aðgerðasinna í haldi.

Þetta er í annað skiptið sem Gui, sem er 53 ára gamall og fæddur í Kína, er handtekinn í Kína. Langt er síðan hann flutti til Svíþjóðar og fékk sænskan ríkisborgararétt.

Árið 2015 hvarf hann líkt og fjórir aðrir útgefendur í Hong Kong sem þekktir voru fyrir útgáfu á bókum sem ekki voru kínverskum yfirvöldum þóknanlegar. 

Gui var í fríi í Taílandi þegar hann hvarf þá og fannst loks í Kína þar sem hann játaði að hafa átt aðild að banaslysi í umferðinni og smygli á bönnuðum bókum.

Kínversk yfirvöld sögðust hafa látið hann lausan í október en dóttir hans segir að hann hafi verið undir eftirliti áfram í borginni Ningbo þar sem ættingjar hans búa.

Angela segist hafa rætt við föður sinn nokkrum sinnum í viku í gegnum Skype á þeim tíma. Hann hafi fengið að hitta sænska konsúlinn í Sjanghæ í þrígang til þess að sækja meðal annars um nýtt vegabréf.  

Angela útskrifaðist með meistaragráðu frá Warwick-háskólanum sama dag og faðir hennar hvarf og síðan hefur hún ekki heyrt frá honum síðan.

Gui var handtekinn 20. janúar af óeinkennisklæddum lögreglumönnum í lestinni milli Ningbo og Peking en þar átti hann að hitta lækni. Ekki hefur verið gefin út opinber skýring á handtökunni. 

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert