Vill banna kynlíf milli ráðherra og starfsmanna

Barnaby Joyce (t.v.) horfir á forsætisráðherrann Malcolm Turnbull á blaðamannafundi …
Barnaby Joyce (t.v.) horfir á forsætisráðherrann Malcolm Turnbull á blaðamannafundi í Sydney. AFP

Forsætisráðherra Ástralíu hefur lagt til að kynlíf milli ráðherra og starfsmanna þeirra verði bannað. Ákvörðunin kemur í kjölfar hneykslismáls er tengist varaforsætisráðherranum Barnaby Joyce. Upp komst að hann hélt við aðstoðarkonu sína og varð hún ólétt. 

Malcolm Turnbull forsætisráðherra tilkynnti um þessa fyrirhuguðu breytingu á siðareglum ráðherra á blaðamannafundi. Hann sagði Joyce hafa valdið eiginkonu sinni og fjórum börnum „hræðilegum sársauka og niðurlægingu“.

Sagði hann að Joyce hefði sýnt af sér mikinn dómgreindarskort „með því að eiga í ástarsambandi við unga konu sem vann á skrifstofu hans“. Hann segir að með hegðun sinni hafi ráðherrann gengið fram af öllum. 

Joyce er fimmtugur og konan sem hann hélt við er 33 ára. Upplýst var um samband þeirra og óléttu konunnar í fjölmiðlum í síðustu viku. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert