Demantasali í stóru fjárdráttarmáli á Indlandi

Mótmælendur söfnuðust saman í höfuðborg Indlands í gær vegna svikamáls …
Mótmælendur söfnuðust saman í höfuðborg Indlands í gær vegna svikamáls Modi og brenndu myndir af honum. AFP

Indverski auðjöfurinn og skartgripasalinn Nirav Modi er ásamt viðskiptafélögum sínum grunaður um að standa á bak við eitt stærsta fjárdráttarmál í sögu Indlands. Er hann talinn hafa komist yfir upphæð sem nemur um 4,4 milljörðum króna með sviksömum hætti.

Indversk yfirvöld hafa handtekið þrjá menn í tengslum við málið, en þeir eru grunaðir um að hafa aðstoðað Modi við skjalafölskun til að fá lán hjá einum stærsta banka landsins, Punjab National Bank. Eru tveir hinna handteknu starfsmenn bankans en sá þriðji viðskiptafélagi Modi.

Þá er einnig fjórði maðurinn grunaður um aðild að málinu, en hann er einnig viðskiptafélagi Modi.

Samkvæmt úttekt tímaritsins Forbes er Modi talinn eiga 1,73 milljarða dala, eða sem nemur rúmlega 170 milljörðum íslenskra króna. Er hann þar með í 85. sæti yfir ríkustu menn Indlands samkvæmt tímaritinu.

Modi er einn stofnenda Firestar Diamond og hefur hann selt fjölda Hollywood-stjarna skartgripi í gegnum tíðina. Er lúxus verslanir í hans nafni að finna víða um heim.

Yfirvöld á Indlandi hafa fellt vegabréf Modi og viðskiptafélaga hans úr gildi, en talið er að þeir hafi komist úr landi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert