Sleppi sokkum og skóm til að stöðva prófasvindl

Þeir nemendur sem mæta í sokkum eða skóm í prófið ...
Þeir nemendur sem mæta í sokkum eða skóm í prófið verða látnir bíða fyrir utan stofuna. AFP

Yfirvöld í Bihar fylki á Indlandi hafa beðið nemendur um að sleppa því að vera í sokkum eða skóm í prófum, en með þessu vilji menn koma í veg fyrir að nemendur laumi miðum með svörum með sér inn í prófin.

Reglan mun öðlast gildi á miðvikudag, þegar 1,8 milljónir 15 ára indverskra barna taka lokapróf sín. Segir BBC Bihar hafa slæmt orð á sér vegna prófasvindls nemenda. Segja yfirvöld að einnig verði leitað á nemendum áður en þeir fá að fara inn í stofuna og þá verða eftirlitsmyndavélar notaðar til að fylgjast með þeim er þeir skrifa svör sín.

Þeir nemendur sem mæta í sokkum eða skóm, verða beðnir um að bíða fyrir utan stofuna.

Árið 2016 tilkynntu yfirvöld í Bihar að gripið yrði til refsinga á borð við sekt og fangelsisvist við prófasvindli. Þannig var 17 ára nemandi sem hafði fengið góðar einkunnir handtekinn eftir að grunur vaknaði um svindl og nemandinn hafði fallið á endurtökuprófi.

Árið 2013 voru rúmlega 1.600 nemendur reknir úr skóla fyrir að svindla og 100 foreldrar voru hnepptir í varðhald fyrir að hjálpa börnum sínum að svindla á prófi.

Áður en yfirvöld gripu til þessara hertu aðgerða náðu yfir 70% nemenda í Bihar lokaprófum sínum, en eftir þetta hefur hlutfall þeirra sem ná prófunum verið í kringum 50%.

Góðar einkunnir eru á Indlandi taldar nauðsynlegar ætli fólk að standa sig vel í framtíðinni.

mbl.is