„Fremja morð áður en ég verð 25 ára“

Jemma Lilley.
Jemma Lilley.

Ung bresk kona hefur verið dæmd í lífstíðarfangelsi fyrir morð á unglingspilti ásamt samleigjanda sínum. Unga konan var heltekin af raðmorðingjum og var með morð á listanum yfir það sem hún ætlaði að gera fyrir 25 ára aldur. 

Refsingin var kveðin upp í Perth í Ástralíu í dag yfir Jemma Lilley, 26 ára, og Trudi Lenon en þær voru fundnar sekar um morðið í nóvember. Hvorug þeirra á möguleika á náðun fyrr en í fyrsta lagi eftir 28 ár.

Lilley er innflytjandi í Ástralíu og hefur búið þar í nokkur ár. Við réttarhöldin kom fram að Lilley hefði verið með þráhyggju varðandi morð og eftir að hafa tekið ákvörðun um að fremja morð hafi ekkert getað stöðvað hana. Hún skrifaði meðal annars bók um raðmorðingja sem hún nefndi SOS.

Fórnarlambið, Aaron, var 18 ára þegar hann var myrtur í júní 2016 en pilturinn var með Asperger og hvers manns hugljúfi að sögn móður hans.

Lenon, sem er 43 ára, lýsti því við réttarhöldin hvernig Lilley hafi ætlað að kyrkja drenginn með vír aftan frá en þar sem vírinn þoldi ekki álagið stakk hún hann til bana. Þegar hún réðst á drenginn aftan frá sat hann og var að hlaða niður tölvuleik í tölvu hennar. 

Lilley gekk í hjónaband í Ástralíu árið 2012 til þess að komast hjá því að vera vísað úr landi þegar landvistarleyfi hennar var að renna út. Eiginmaður, sem var samkynhneigður, lést nokkru síðar en besti vinur hans kynnti Lilley fyrir Lenon árið 2016. Þær urðu mjög fljótt nánar vinkonur, segir í fréttum ástralskra miðla. 

Lenon, sem er tveggja barna móðir, hafði verið mjög virk í samfélagi BDSM í Perth og gekk þar undir heitinu Corvina. Lilley bauð Lenon og börnum hennar að flytja til sín í maí 2016 sem þau þáðu. Þá þegar voru þær þegar byrjaðar að deila fantasíum sínum um að fremja morð í skilaboðum sem þær sendu sín á milli á netinu og samband drottnara og þess undirgefna hafið þeirra á milli þar sem Lenon var sú undirgefna.

BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert