Hreinsa „menguðustu á heims“

Maurakláðinn á höndum og fótum hrísgrjónabóndans Yusuf Supriyadi minnir hann daglega á að hann býr við hlið „óhreinustu ár heims“. Hann stólar á vatnið í Citarum-ánni í Indónesíu en í því flýtur sorp, eiturefni og úrgangur frá dýrum. Vatnið þarf hann að nota til að vökva litla hrísgrjónaakurinn sinn á vesturhluta eyjunnar Jövu. Akurinn er lifibrauð hans og fimm annarra í fjölskyldunni. 

En uppskeran hefur minnkað um tvo þriðju hluta þetta regntímabilið þar sem fataverksmiðjur setja sífellt meira af úrgangi sínum út í ána. En Supriyadi hefur enga valmöguleika. 

„Það verða flóð á regntímanum. Mig fer að klæja í hendurnar og uppskeran skemmist,“ segir hinn 54 ára bóndi í samtali við AFP-fréttastofuna. „Mengunin rýrir uppskeruna mína. Ég held áfram að tapa peningum. En það er enga aðra vinnu að fá.“

Gríðarlegur úrgangur frá fyrirtækjum og heimilum fer í ána á …
Gríðarlegur úrgangur frá fyrirtækjum og heimilum fer í ána á hverjum degi. AFP

Neyðarástand ríkir í Jakarta vegna mengunar í ánni og tilraunir til að hreinsa hana hafa hingað til reynst árangurslausar. En betur má ef duga skal og nú hefur enn einu átakinu verið hleypt af stokkunum og er stefnt að því að Citarum-áin verði drykkjarhæf fyrir árið 2025.

Að nota vatnið úr ánni er áhættusamt fyrir þær 30 milljónir manna sem stóla á það til að vökva, þvo þvotta og jafnvel til drykkjar. Um 80% íbúa borgarinnar Jaktarta stóla á vatnið úr henni. 

Citarum-áin er um 300 kílómetra löng. Búið er að stífla hana og er rafmagnið notað á þéttbýlustu eyju Indónesíu, Jövu, sem og á ferðamannaeyjunni Balí.

World Bank segir ána þá menguðustu í heimi. Á topp þess lista komst hún fyrir heilum áratug. 

Nú er svo komið að vatnið úr henni er bókstaflega hættulegt. Í henni finnast fjölmörg mengandi efni og er magn þeirra þúsundfalt yfir viðmiðunarmörkum á drykkjarhæfi magni.

Stjórnvöld í Jakarta ákváðu í janúar að láta hendur standa fram úr ermum og fengu sveitarfélög sem land eiga að ánni í lið með sér. Fyrsta skrefið er að taka á þeim mengunarefnum sem berast út í ána frá iðnaði en mörg slík fyrirtæki hafa algjörlega hunsað lög og reglur um förgun úrgangs. Nú eiga þessi fyrirtæki á hættu að missa starfsleyfi sín.

Hrísgrjónabóndinn Yusuf Supriyadi þarf að stóla á vatn árinnar. Hann …
Hrísgrjónabóndinn Yusuf Supriyadi þarf að stóla á vatn árinnar. Hann segir hana mengaða og spilla uppskerunni. AFP

Þá á að koma eftirlitsmyndavélum fyrir víða við ána. Einnig hefur verið hafist handa við að hreinsa rusl upp úr ánni og sía á sömuleiðis vatnið til að ná úr því einhverjum eiturefnum. „Við erum ekkert að grínast í þetta skiptið,“ segir talsmaður innanríkisráðuneytisins. 

Iðnaðarsvæði byggðist hratt upp við ána á níunda áratug síðustu aldar. Þá breyttist ásýnd og ástand árinnar mjög fljótt. 

280 tonn á dag

Í dag eru um 2.000 fataverksmiðjur við ána en á hverjum degi losa þær um 280 tonn af úrgangi í hana. Áin flæðir svo reglulega yfir bakka sína og mengað og hættulegt vatnið fer inn í hús fátæks fólks sem býr við ána. Svo menguð er áin að hún er stórhættulegt að mati stjórnvalda. 

Margir sem við hana búa eru með alls konar húðsjúkdóma. Þá hafa þeir einnig fengið öndunarfærasjúkdóma.

 „Ég hlakka til að sjá ána aftur eins og hún var,“ segir einn íbúinn. „Einu sinni gat ég synt í henni og drukkið vatnið. Það var svo hreint.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert