Fara í refsiaðgerðir gegn Rússum

Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. AFP

Ríkisstjórn Donalds Trump Bandaríkjaforseta hóf í dag refsiaðgerðir gegn mörgum rússneskum stofnunum, fyrirtækjum og einstaklingum vegna afskipta Rússa af forsetakosningunum vestanhafs í nóvember árið 2016 sem og vegna annarra „meinfýsinna“ tölvuárása. 

Þetta kemur fram í frétt New York Times og er þar sagt að þetta séu viðamestu aðgerðir af þessu tagi gegn Rússum sem farið hefur verið í frá því að Trump settist á forsetastól.

Bandaríkjamenn hafa einnig sagst ætla að standa við bakið á Bretum vegna eitrunarmálsins þar í landi. Segja þeir notkun eiturefna í morðtilræðinu á Skripal-feðginunum „klárt brot“ á alþjóðalögum. Í yfirlýsingu bandarískra stjórnvalda vegna málsins kom þó ekki fram að þeir ætluðu að sameinast um aðgerðir gegn Rússum.

Í frétt New York Times kemur fram að aðgerðirnar beinist gegn fimm rússneskum stofnunum og nítján einstaklingum. Þær hafa m.a. í för með sér ferðabann til Bandaríkjanna og frystingu eigna umræddra aðila þar í landi. Þá er bandarískum fyrirtækjum bannað að eiga í viðskiptum við þessa aðila.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert