Slökkt á öndunarvél í kjölfar dóms

Alfie Evans.
Alfie Evans. AFP

Foreldrar tæplega tveggja ára gamals drengs sem er með banvænan sjúkdóm töpuðu í gær fyrir dómi í Bretlandi máli þar sem þau reyndu að koma í veg fyrir að læknar slökktu á öndunarvél drengsins. Slökkt var á öndunarvélinni í gærkvöldi.

Hæstiréttur Bretlands hafnaði áfrýjun foreldra Alfie Evans,Tom Evans og Kate James, um að því yrði frestað að slökkva á öndunarvél drengsins á meðan leitað yrði nýrra leiða til þess að bjarga lífi hans. Alfie er 23 mánaða gamall og þjáist af afar sjaldgæfum taugahrörnunarsjúkdómi sem veldur því að hann fær ítrekaða krampa. Alfie hefur verið í dái í eitt ár og hefur verið haldið á lífi með aðstoð öndunarvélar.

Alder Hey Children's Hospital í Liverpool.
Alder Hey Children's Hospital í Liverpool. AFP

Læknar við Alder Hey-barnasjúkrahúsið í Liverpool slökktu í kjölfar niðurstöðu hæstaréttar á öndunarvél Alfie en að sögn Evans andar hann af sjálfsdáðum en hefur fengið súrefnisgjöf frá því slökkt var á vélinni. 

Foreldrar hans vildu fara með hann á Bambino Gesu-sjúkrahúsið í Róm en sjúkrahúsið er rekið af Páfagarði. Evans átti fund með Frans páfa á miðvikudaginn þar sem hann bað páfa um að bjarga lífi drengsins. Síðar sama dag talaði páfi um að Guð væri sá eini sem réði för þegar kæmi að lífi. Það væri okkar hlutverk að gera allt sem í okkar valdi stæði til þess að vernda líf. Páfi birti í gær færslu á Twitter til stuðnings fjölskyldunni.

Hópur fólks kom saman fyrir utan sjúkrahúsið í Liverpool til að styðja foreldra hans í baráttunni. Ítölsk yfirvöld veittu Alfie ríkisborgararétt í gær í þeirri von að það myndi auðvelda flutning hans til Rómar. 

AFP

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert