„Lífi okkar hefur verið snúið á hvolf“

Tom Evans, faðir Alfie Evans, tilkynnir fjölmiðlum að fjölskyldan muni …
Tom Evans, faðir Alfie Evans, tilkynnir fjölmiðlum að fjölskyldan muni draga sig í hlé og einbeita sér að því að tryggja syni sínum sem besta læknismeðferð. AFP

Tom Evans, faðir Alfie litla sem berst fyrir lífi sínu á sjúkrahúsi  Liverpool, hvetur þá sem hafa sýnt fjölskyldunni stuðning í baráttunni fyrir leit að lækningu fyrir drenginn að halda áfram sínu daglega lífi.

Alfie Evans hefur barist hetjulega fyrir lífi sínu.
Alfie Evans hefur barist hetjulega fyrir lífi sínu. AFP

Foreldrar Alfies hafa staðið í harðri baráttu í tæpt ár vegna veikinda sonar síns, sem er 23 mánaða gam­all og þjá­ist af afar sjald­gæf­um tauga­hrörn­un­ar­sjúk­dómi sem veld­ur því að hann fær ít­rekaða krampa.

Al­fie hef­ur verið í dái í eitt ár og hef­ur verið haldið á lífi með aðstoð önd­un­ar­vél­ar. Slökkt  var á öndunarvélinni á mánudagskvöld í kjölfar dómsúrskurðar og hafa foreldrarnir óskað eftir því að leita meðferðar í Róm á sjúkrahúsi sem er rekið af Páfagarði. Áfrýjunardómstóll meinaði foreldrunum að ferðast með Alfie í gær og byggði úrskurð sinn á því að drengurinn sé of veikburða.

Biður stuðningsmenn Alfies um að draga sig í hlé

Nú virðast foreldrarnir vera sáttir við að dvelja í Liverpool. „Lífi okkar hefur verið snúið á hvolf vegna þeirrar miklu athygli sem Alfie og staða hans hefur fengið,“ sagði Tom í samtali við fjölmiðla fyrir utan Alder Hey-barnasjúkrahúsið í dag. Fjölskyldan hefur komist að samkomulagi við lækna Alfies um að hann dvelji áfram í Bretlandi.

„Litla fjölskyldan okkar ásamt Alder Hey hefur vakið mikla athygli með þeim afleiðingum að við höfum ekki getað háttað lífi okkar eins og við viljum,“ sagði Tom. Hann þakkaði þann mikla stuðning sem fjölskyldunni hefur verið sýndur, meðal annars í Póllandi og á Ítalíu. „Við viljum hins vegar biðja ykkur um að snúa aftur til ykkar daglega lífs og leyfa mér, Kate [móður Alfie] og Alder Hey að mynda gott samband, byggja brú og ganga yfir hana,“ sagði Tom.

Starfsfólk sjúkrahússins hefur þurft að þola mikið áreiti frá almenningi sem hefur krafist þess að Alfie verði leyft að yfirgefa sjúkrahúsið.

Tom sagði að nú yrði lögð áhersla á að Alfie fengi sem besta meðferð í samráði við lækna á Alder Hey-barnasjúkrahúsinu. Fjölskyldan muni ekki senda frá sér fleiri tilkynningar eða veita fleiri viðtöl. „Við vonum að þið virðið það.“

Sérstök bænastund fór fram í Vatíkaninu í kvöld fyrir Alfie …
Sérstök bænastund fór fram í Vatíkaninu í kvöld fyrir Alfie litla sem berst fyrir lífi sínu. AFP

Alfie andar enn af sjálfsdáðum

Alfie hefur andað að sjálfsdáðum frá því að slökkt var á öndunarvélinni á mánudag, öllum að óvörum og sérstaklega læknunum. Til stendur að Alfie fái að fara heim til sín, en hann hefur dvalið á sjúkrahúsinu í rúmt ár. „Þriðja daginn í röð hefur hann ekki átt í neinum vandræðum með öndun. Hjúkkurnar koma inn og segja: „Vá,““ sagði Tom. Alfie hefur hins vegar ekki ennþá komist til meðvitundar og óljóst er hvort og hvenær það gerist. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert