Verkfall 77.000 ríkisstarfsmanna yfirvofandi

Frá verkfalli Unio, bandalagi háskólamenntaðra í Noregi, árið 2012.
Frá verkfalli Unio, bandalagi háskólamenntaðra í Noregi, árið 2012. Ljósmynd/Wikipedia.org/Ulf Larsen

Starfsmenn fangelsa, skrifstofufólk hjá lögregluembættum, starfsfólk vinnumálastofnunarinnar NAV og iðnaðarmenn sem vinna að viðhaldi gömlu Niðarósdómkirkjunnar í Þrándheimi eru meðal þeirra sem gætu lagt niður störf og hafið verkfall í áföngum frá næstkomandi fimmtudegi nái ríkissáttasemjari Noregs ekki að knýja til kyrrðar kjaradeilur alþýðusambandsins LO, stéttarsamtakanna YS, Akademikerne, sem eru ein samtök háskólamenntaðra, og stéttarfélagsins Unio, sem eru önnur samtök háskólamenntaðra í Noregi, við norska ríkið.

„Auðvitað stefnum við alltaf á að finna lausn, en við þurfum engu að síður að búa okkur undir að láta sverfa til stáls,“ segir Egil André Aas, formaður ríkisstarfsmannadeildar LO, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK þar sem reyndar einnig geisar verkfall en 1.700 fréttamenn þess lögðu niður störf í síðustu viku og hefur lítið þokast í samningsátt síðan.

Gætu misst af prófum

Meðal þeirra sem eru í verkfallshættu á fimmtudaginn eru einnig starfsmenn norskra háskóla og er fyrirsjáanlegt að nemendur Háskólanna í Ósló, Bergen og Stavanger, auk annarra, gætu misst af því að taka vorpróf sín verði af verkfalli.

Mikið mæðir á Nils Dalseide, ríkissáttasemjara Noregs, næstu dægur að koma á sáttum en meðal þess sem samningsaðilar deila um er óútskýrður launamunur karla og kvenna í sambærilegum stöðum hjá norska ríkinu. Önnur þrætuepli, svo sem ABC Nyheter greinir frá, eru tækifæri til endurmenntunar og lífeyrisréttindi. Sjaldgæft er að beinlínis sé deilt um launahækkanir í norskum kjaradeildum þar sem almenn þjóðarsátt ríkir í landinu um að þær séu hóflegar en reglulegar.

Það sem mest kemur þó við kaunin á íbúum höfuðborgarinnar Óslóar er lömun strætisvagnasamgangna komi til verkfalls 2.000 strætisvagnastjóra. Þar með yrði álagið á sporvagna- og lestakerfi borgarinnar mun meira en þessi samgöngutæki hafa möguleika á að anna, en tafir, bilanir og alls kyns skráveifur aðrar hafa þegar sett mark sitt svo rækilega á rekstraraðila þessara tækja að þeir mega vart við frekari gagnrýni í fjölmiðlum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert