Bjóða ríkjum Miðausturlanda í Eurovision

Hin ísraelska Netta Barzilai, sem sigraði í Eurovision í ár, …
Hin ísraelska Netta Barzilai, sem sigraði í Eurovision í ár, á tónleikum í Tel Aviv að lokinni söngvakeppninni í Lissabon. AFP

Ísraelar ætla að bjóða ríkjum Miðausturlanda og Norður-Afríku að taka þátt í Eurovision á næsta ári. Frá þessu greinir blaðamaðurinn Julien Bahloul á Twitter og Escxtravefurinn, sem sérhæfir sig í fréttum tengdum söngvakeppninni, tekur málið upp.

Bahloul, sem starfar hjá ísraelska miðlinum i24news, segir fjölmiðlaráðherra Ísraels hafa sagst ætla að bjóða Sádi-Arabíu og Sameinuðu arabísku furstadæmunum, Túnis og öðrum nágrannaríkjum að taka þátt þegar keppnin fari fram í Ísrael að ári. Bahloul bætir þó við að ráðuneytið sendi reglulega frá sér „skrýtnar fullyrðingar“ og því eigi eftir að koma í ljós hvernig þetta eigi eftir að vera í framkvæmd.

Escxtra bendir á að þátttaka í Eurovision sé opin þeim þjóðum sem tilheyra evrópska ráðherraráðinu, eða sambandi evrópskra sjónvarpsstöðva (EBU). Þar sem að útsendingar EBU nái til Norður-Afríku, m.a. til Marokkó og Túnis þá megi bæði þessi ríki taka þátt í keppninni. Marokkó hafi raunar þegar einu sinni tekið þátt í keppninni árið 1980, en það ár tók Ísrael ekki þátt. Túnis hafi ætlað að taka þátt 1977 en hætt svo við.

Alsír, Egyptaland, Jórdanía, Líbýa og Líbanon geti sömuleiðis tekið þátt og Líbanon hafi raunar ætlað að gera það árið 2005 en hætt svo við þar sem að líbönsk lög banni útsendingar á ísraelsku efni. Þá nái útsendingar EBU einnig til Íraks og Sýrlands sem sömuleiðis gætu þá tekið þátt.

Ríkin sem eru innar, m.a. Sádi-Arabía og Sameinuðu arabísku furstadæmin megi hins vegar ekki taka þátt í keppninni þrátt fyrir fullyrðingar ráðherrans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert