Svíar herða refsingar í kynferðisbrotum

Sænska þingið.
Sænska þingið. Af vef Svenska Riksdag

Sænska þingið hefur samþykkt að herða lög um kynferðisbrot og frá 1. júlí verður saknæmt að hafa kynmök við einhvern án þess að fyllilega sé ljóst að viðkomandi sé samþykkur. Samkvæmt nýju lögunum telst samþykki vera ef viðkomandi hefur sagt það berum orðum eða sýnt það með gerðum sínum að hann vilji stunda kynmök. Ef ekki þá er það talið saknæmt og skiptir engu hvort ofbeldi hafi verið beitt eður ei.

Jafnframt þarf ekki lengur að sanna ásetning ef um verulega alvarlegt kynferðisbrot er að ræða. Sem þýðir að meintur gerandi gæti verið dæmdur þrátt fyrir að hann eða hún hafi ekki ætlað sér að nauðga fórnarlambinu.

„Þetta er aðeins eitt skref af mörgum í átt að því að full virðing verði borin fyrir kynvitund einstaklings,“ segir Maria Arnholm, þingmaður frjálslyndra, Liberalerna.

Refsing fyrir hrottalega nauðgun og nauðgun á barni verður að lágmarki fimm ára fangelsi en í dag er lágmarksrefsing fyrir slíkt brot þriggja ára fangelsi.

Mikil umræða hefur verið um #MeToo-byltinguna í Svíþjóð undanfarna mánuði og er talið að hún muni hafa mikil áhrif á ýmsan hátt í sænsku þjóðlífi áfram. Er meðal annars rætt um áhrif á sumarhátíðir o.fl.

Frétt á vef sænska þingsins

DN

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert