Kemur síðastur og fer fyrstur

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, verður síðastur leiðtoga ríkjanna sjö til þess að mæta á G7-fundinn sem hefst í Kanada í dag. Hann á líka von á því að verða fyrstur til þess að yfirgefa fundinn.

Gert er ráð fyrir að fundurinn verði sá hatrammasti í mörg ár þar sem meðal annars verður rætt um tollamál. Bæði yfirvöld í Kanada og Frakklandi hafa harðlega gagnrýnt ákvörðun Trumps um að setja tolla á innflutning á stáli og áli til Bandaríkjanna. En það er ekki eina málið sem deilt verður um því kjarnorkusamningur við Íran og loftslagsmál verða einnig rædd á fundinum. 

Leiðtogar Kanada, Bandaríkjanna, Bretlands, Frakklands, Ítalíu, Japan og Þýskalands mæta til fundarins síðar í dag í bænum La Malbaie í Quebec.

Emmanuel Macron, forseti Frakklands, skrifar á Twitter að ef Trump vilja verða einangraður þá geti ríkin sex skrifað undir samkomulag sín á milli því þessi sex ríki standi vörð um gildi. Þau virði sameiginlega markaði. 

Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, hefur einnig sótt að Trump og segir að þegar Trump vísi í þjóðaröryggi þegar hann reynir að verja innflutningstolla á ál og stál þá sé það hlægilegt.

Trump svarar þeim fullum hálsi á Twitter líkt og venjan er.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert