Augu heimsbyggðarinnar hvíla á Sentosa

Mikill áhugi er fyrir leiðtogafundi þeirra Donald Trumps Bandaríkjaforseta og Kim Jong-un, leiðtoga Norður-Kóreu, sem hefst klukkann eitt í nótt að íslenskum tíma. Þetta verður í fyrsta skipti í sögunni sem leiðtogar ríkjanna tveggja hittast og hvíla augu heimsbyggðarinnar nú á eyjunni Sentosa, vinsælum ferðamannastað í Singapúr, þar sem leiðtogarnir munu hittast.

Trump virtist bjartsýnn er hann tjáði sig um fundinn á Twitter snemma á þriðjudagsmorgun að staðartíma. Sagði hann undirbúninginn fyrir fundinn ganga „hratt og vel“.

„Við munum öll komast fljótt að því hvort að raunverulegst samkomulag, ólíkt hinum fyrri, geti náðst,“ sagði Trump á Twitter og gagnrýndi því næst „lúsera og hatara“ sem líti á fundinn sem varasama eftirkjöf við Kim.

Benti Trump máli sínu til stuðnings á að yfirvöld í Norður-Kóreu hafi nýleg látið þrjá bandaríska gísla lausa og að þau hafi heitið því að láta af frekari kjarnavopnaárásum. „Þessir spekingar sem hafa frá upphafi sagt mig hafa á röngu að standa hafa ekkert eftir að segja!,“ sagði hann.

„Þetta mun ganga vel“.

Hvíta húsið staðfesti á mánudag að þeir Trump og Kim verði ein­ir á fund­in­um til að byrja með og að ein­ung­is túlk­ar þeirra viðstadd­ir. Embættismenn beggja ríkjanna munu svo snæða með þeim hádegisverð.

Trump yf­ir­gefur Singa­púr strax að fundi lokn­um á morg­un og Kim heldur síðan heim til Norður-Kóreu síðar um daginn.

Mikil spenna hefur lengi verið í samskiptum Bandaríkjanna og Norður Kóreu og fór hún vaxandi eftir að Trump tók við embætti. Þar til nýlega hefði því verið talið óhugsandi að þeir Trump og Kim ættu eftir að funda nú í sumar.

Trump hefur áður sagt viðræðurnar vera einstakt tækifæri til að koma á friði, en bandarísk stjórnvöld vonast til að með viðræðunum takist að hefja ferli sem muni leiða til afvopnavæðingar kjarnavopna á Kóreuskaga.

Sérfræðingar í málefnum Norður-Kóreu hafa þó varað við bjartsýni í þeim efnum og benda á að ráðamenn ríkjanna leggi mögulega mismunandi skilning í skilgreiningu á afvopnun kjarnavopna.

Á mánudag sagði Mike Pom­peo, ut­an­rík­is­ráðherra Banda­ríkj­anna, að Banda­rík­in væru til­bú­in að bjóða „ein­stakt“ lof­orð um ör­ygg­is­ráðstaf­an­ir ef Norður-Kóra samþykkti að hefja eyðingu kjarna­vopna lands­ins. Ekki verði annað tekið í mál en að Norðu-Kórea losi sig al­veg við kjarna­vopn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert