Viðræður gengið hraðar en búist var við

Hinn sögulegi fundur fer fram á morgun, 12. júní.
Hinn sögulegi fundur fer fram á morgun, 12. júní. AFP

Viðræður Bandaríkjamanna og Norður-Kóreu í aðdraganda leiðtogafundar Donald Trump Bandaríkjaforeta og Kim Jong-un, leiðtoga Norður-Kóreu, hafa gengið mun hraðar en búist var við, að því er fram kemur í tilkynningu frá Hvíta húsinu. Hinn sögulegi fundur fer fram í Singapúr klukkan níu í fyrramálið að staðartíma, en klukkan eitt í nótt að íslenskum tíma, á eyjunni Sentosa sem er vinsæll ferðamannastaður. BBC greinir frá.

Þá staðfestir Hvíta húsið að Trump og Kim verði einir á fundinum, einungis túlkar verði viðstaddir. Trump mun svo yfirgefa Singapúr strax að fundi loknum á morgun.

Fyrr í dag sagði Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, að Bandaríkin væru tilbúin að bjóða „einstakt“ loforð um öryggisráðstafanir ef Norður-Kóra samþykkti að hefja eyðingu kjarnavopna landsins. Ekki verði annað tekið í mál en að Norðu-Kórea losi sig alveg við kjarnavopn.

Vivian Balakrishnan, utanríkisráðherra Singapúr, sem hitti bæði Kim og Trump á sunnudagskvöld, sagði í samtali við BBC að báðir leiðtogarnir væru ákaflega öruggir með sig. Þeir dvelja á sitthvoru hótelinu í Singapúr sem eru nálægt hvort öðru.

Trump skrifaði færslu á Twitter snemma í morgun þar sem hann sagði frábært að vera kominn til Singapúr og að það væri spenna í loftinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert