Deilt um borðbúnað fyrir forsetahöllina

Forsetahjónin Brigitte og Emmanuel Macron. Kaup á nýjum borðbúnaði fyrir …
Forsetahjónin Brigitte og Emmanuel Macron. Kaup á nýjum borðbúnaði fyrir forsetahöllina hafa vakið deilur. AFP

Frönsku forsetahjónin, Emmanuel og Brigitte Macron, eru nú miðpunktur deilu um nýjan borðbúnað fyrir forsetahöllina. Skipta á um leirtau í Élysée forsetahöllinni og valdi forsetafrúin stell, sem forsetaskrifstofan segir að kosti 50.000 evrur fyrir alla 1.200 gripina.

Gagnrýnendur, m.a. ádeilutímaritið Le Canard enchaîné,  segja 500.000 evrur vera nær lagi, að því er BBC greinir frá.

Fullyrðingarnar komu upp á yfirborðið þegar myndband, sem talsmaður forsetans birti á Twitter, sýndi Macron ræða um að „hrúgu af fjármunum“ eytt sé í bótagreiðslur án þess að nokkuð breytist. Myndbandið fékk mikla dreifingu á samfélagsmiðlum og vakti upp ásakanir um fyrirlitningu Macrons í garð hinna fátæku og að hann hefði lítil tengsl við almenning.

Hafa framleitt postulínið fyrir forsetahöllina frá 1848

Borðbúnaðurinn sem notaður er í Élysée í dag er frá þeim tíma sem Jaques Chirac var forseti, fyrir áratug síðan. Hluti hans raunar frá því að René Coty var forseti á sjötta áratug síðustu aldar. Tími er því sagður vera kominn til að endurnýja borðbúnaðinn sem sé gamall og settið ekki lengur heilt.

Þar kemur Sèvres postulínsverksmiðjan til sögunnar, en verksmiðjan hefur framleitt borðbúnaðinn sem er notaður í höllinni frá 1848. Bleu Élysée hönnunin eftir Évariste Richer er raunar skissa af forsetahöllinni sjálfri.

Hjá forsetahöllinni segja menn að kostnaðurinn við framleiðslu 900 diska og 300 hliðardiska komu úr árlegu ráðstöfunarfé verksmiðjunnar. 50.000 evrurnar séu hins vegar greiðslan til listamannanna sem eiga heiðurinn að skreytingunni.

Le Canard enchaîné segir kostnaðinn við að framleiða 1.200 handmálaða postulínsdiska hins vegar vera mun hærri. Raunhæfara sé að telja hann nema um 400 evrum á disk, sem er rúmlega 10 sinnum hærri upphæð en sá kostnaður sem hið opinbera gefur upp.

Aðrir segja 200 evrur á disk nær lagi og benda á að um 60% af árlegum fjármunum verksmiðjunnar, um 3,6 milljónir evra, komi frá franska menningarmálaráðuneytinu. Forstjóri verksmiðjunnar segir kostnaðinn á hvern disk hins vegar enn ekki hafa verið reiknaðan út, en að enginn reikningur verði sendur á forsetahöllina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert