Spánverjar taka á móti flóttafólki sem aðrir höfðu hafnað

Yfirvöld á Spáni hafa tekið á móti skipi í spænsku hafnarborginni Valencia sem bjargaði flóttafólki á Miðjarðarhafi, en skipið fékk hvorki að koma til hafnar á Möltu og á Ítalíu. 

Flóttafólk sést hér yfirgefa skip ítölsku strandgæslunnar í morgun.
Flóttafólk sést hér yfirgefa skip ítölsku strandgæslunnar í morgun. AFP

Rétt fyrir dögun að spænskum tíma kom fyrsta skipið af þremur til hafnarinnar. Hluti fólksins sem var bjargað um borð í skipið Aquarius komst loks í land, en alls var 629 bjargað skammt undan strönd Líbýu um síðustu helgi. 

Heilbrigðisstarfsfólk og túlkar tóku á móti fólkinu til að bjóða því aðstoð, að því er segir á vef BBC.

Ný ríkisstjórn sósíalista á Spáni hefur lofað að bjóða upp á ókeypis heilbrigðisþjónustu og segist ætla að rannsaka öll mál hælisleitenda. 

Lögregla, túlkar og starfsmenn Rauða krossins voru á meðal þeirra …
Lögregla, túlkar og starfsmenn Rauða krossins voru á meðal þeirra sem tóku á móti flóttafólkinu. AFP

„Það er skylda okkar að koma í veg fyrir stórslys og bjóða þessu fólki örugga höfn, og verða þannig við okkar skyldur í mannúðarmálum,“ sagði Pedro Sánchez, forsætisráðherra landsins, fyrr í vikunni. 

Hann hefur tekið upp jákvæða og vinveitta afstöðu gagnvart flóttafólki eftir að hann komst til valda fyrir hálfum mánuði. 

Dattilo, sem er skip ítölsku strandgæslunnar, kom til hafnar í Valencia kl. 6:20 að staðartíma (kl. 4:20 að íslenskum). Um borð voru 274 flóttamenn. 

Um 1.000 starfsmenn Rauða krossins á Spáni voru mættir til að taka á móti fólkinu. Þá voru lögreglumenn á svæðinu sem voru sérstaklega settir í þau verkefni að taka á móti fólkinu. 

Fjölmennt lið frá Rauða krossinum var með aðstöðu við höfnina …
Fjölmennt lið frá Rauða krossinum var með aðstöðu við höfnina til að taka á móti fólkinu. AFP
Ítalska strandgæsluskipið Dattilo.
Ítalska strandgæsluskipið Dattilo. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert