Sjúkrahúsum lokað vegna loftárása

Stúlka borin út úr rústum í bænum Nawa eftir loftárásir …
Stúlka borin út úr rústum í bænum Nawa eftir loftárásir Rússa. AFP

Loftárásir á yfirráðasvæði uppreisnarmanna í suðurhluta Sýrlands urðu til þess að loka þurfti þremur sjúkrahúsum í nótt. Sýrlandsher sækir fram á svæðinu með stuðningi sinna helstu bandamanna, Rússa. 

Eftirlits- og mannréttindasamtökin The Syrian Observatory for Human Rights segja að rússneskar flugvélar hafi varpað sprengjum á bæina Saida, Al-Mseifra og Al-Jiza í  Daraa-héraði.

„Saida-sjúkrahúsinu var lokað eftir miðnætti vegna loftárása í nágrenni bygginganna,“ segir Rami Rahman, yfirmaður samtakanna.

Þá skemmdu loftárásir Rússa sjúkrahús í bænum Al-Mseifra og varð í kjölfarið að loka því. 

„Þá var sjúkrahúsið í Al-Jiza fyrir skemmdum í morgun. Þar gerðu Rússar loftárásir og það er nú óstarfhæft,“ segir Rahman. Hann hafði ekki upplýsingar um hvort mannfall hefði orðið eða hver örlög starfsmanna sjúkrahúsanna og sjúklingana urðu.

Á þeirri viku sem árásir á þetta svæði hafa staðið hefur fimm sjúkrahúsum verið lokað. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert