Trump hefur leit að nýjum Hæstaréttardómara

Donald Trump á fundi í Fargo í Norður-Dakóta í gær.
Donald Trump á fundi í Fargo í Norður-Dakóta í gær. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti segir að hafist verði handa strax við að leita að dómara við Hæstarétt í stað Anthony Kennedy sem nú er að láta af störfum sökum aldurs. Kennedy er 81 árs og mun hætta í lok júlí. 

„Við þurfum að velja einhvern sem verður þarna í 40 eða 45 ár,“ sagði Trump á fundi í Norður-Dakóta í gær. 

Brotthvarf Kennedys veitir Trump tækifæri til að velja íhaldssamari dómara sem gæti haft áhrif á dóma Hæstaréttar í framtíðinni, segir í frétt BBC um málið.

Kennedy greindi frá því í gær að hann vildi nú einbeita sér meira að fjölskyldu sinni eftir að hafa setið í Hæstarétti í þrjá áratugi. Trump hefur hrósað Kennedy fyrir störf sín og sagt hann „frábæran dómara“.

„Vonandi veljum við einhvern sem er framúrskarandi,“ sagði hann við blaðamenn fyrir utan Hvíta húsið í gær. 

Þetta verður í annað sinn frá því að Trump tók við embætti forseta sem hann kemur að vali dómara við Hæstarétt landsins. Hann segist ætla að velja hinn nýja dómara af lista yfir 25 íhaldsmenn sem sagðir eru koma til greina. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert