Sorg að loknu þrekvirki

AFP

Ástralskur læknir og kafari, sem dvaldi hjá taílensku knattspyrnudrengjunum frá því fljótlega eftir að þeir fundust og þar til björgun þeirra lauk, var sá síðasti til þess að yfirgefa hellinn í gær. Þegar hann kom upp á yfirborðið að nýju fékk hann þær fréttir að faðir hans hefði látist á meðan hann dvaldi í hellinum.

Richard Harris, sem er heimsþekktur læknir og kafari, er einn þeirra sem tóku þátt í björgun drengjanna og þjálfara þeirra en yfirvöld óskuðu sérstaklega eftir aðstoð hans við björgunina.

Harry, eins og hann er alltaf kallaður í samfélagi kafara, var á leið í sumarleyfi þegar kallið kom og hætti við þau áform. Þess í stað hraðaði hann sér til norðurhluta Taílands og aðstoðaði við leit og björgun drengjanna út úr Tham Luang-hellinum. 

Ástralskir fjölmiðlar greina frá því í dag að hann hafi sett líf sitt í hættu með því að kafa fjóra kílómetra inn í hellinn til þess að veita hópnum læknisaðstoð. 

AFP

Í frétt ABC sjónvarpsstöðvarinnar kemur fram að það hafi verið Harris sem tók ákvörðun um í hvaða röð drengirnir voru fluttir út úr hellinum. Björgun þeirra lauk í gær, átján dögum eftir að þeir lokuðust inni í hellinum eftir fótboltaæfingu.

Harris er hluti af tuttugu manna hópi Ástrala sem tóku þátt í aðgerðunum í Chang Rai og hann var sá síðasti sem yfirgaf hellinn í gær. En á sama tíma og björgunarafrekið fékk góðan endi fékk Harris, sem er svæfingalæknir og búsettur í Adelaide, þær sorgarfréttir að faðir hans hefði látist á meðan hann var í hellinum. Félagi hann staðfestir þetta við fjölmiðla í dag en faðir læknisins lést um svipað leyti og björgun drengjanna var yfirstaðin.

Andrew Pearce, yfirmaður læknastofunnar SAAS MedSTAR þar sem Harris starfar, segir að faðir Harris hafi látist skömmu áður en björgunarstarfinu lauk í Taílandi. „Ég er búinn að ræða við Harry. Þetta er sorgarstund fyrir fjölskyldu Harris á sama tíma og álagið er gríðarlegt, bæði líkamlega og andlega, að hafa verið hluti af björgunarteymi sem starfaði við gríðarlega erfiðar aðstæður.“

Utanríkisráðherra Ástralíu, Julie Bishop, þakkar Harris fyrir hans hlut í björgun drengjanna. Hún segir að ríkisstjórn Ástralíu ætli að heiðra alla þá Ástrala sem tóku þátt í björgun drengjanna. 

Hann gerir lítið úr eigin afrekum en forsætisráðherra Ástralíu, Malcolm Turnbull, ræddi við hann í gegnum Skype áðan. „Aðalhetjurnar eru börnin og fjórir sérsveitarmenn úr taílenska sjóhernum sem gættu þeirra,“ sagði Harris við Turnbull í morgun. „Þeir eru harðgerðustu náungar og krakkar sem ég hef nokkurn tíma hitt. Þeir eiga heiðurinn af því hvernig gekk.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert