Nota börn til að njósna um glæpagengi

Breskir lögreglumenn að störfum. Breska lögreglan og njósnastofnanir nota í …
Breskir lögreglumenn að störfum. Breska lögreglan og njósnastofnanir nota í sumum tilfellum börn sem njósnara í leynilegum aðgerðum gegn hryðjuverkasamtökum, glæpagengjum og eiturlyfjasölum. AFP

Breska lögreglan og njósnastofnanir nota börn sem njósnara í leynilegum aðgerðum gegn hryðjuverkasamtökum, glæpagengjum og eiturlyfjasölum. Málið rataði í fjölmiðla upp eftir að nefnd á vegum öldungadeildar bresku þingsins  lýsti yfir áhyggjum af því að bresk stjórnvöld hygðust veita löggæslustofnunum aukna heimild til að nota börn í aðgerðum sínum.

Skrifstofa forsætisráðherra hefur hins vegar varið notkun barnanjósnara í slíkum aðgerðum og segir þetta eingöngu vera gert þegar að nauðsyn beri til.

Guardian segir breska innanríkisráðuneytið vilja fá aukið frelsi við upplýsingaöflun um hryðjuverkamenn með því að nota börn. Njósnarar sem eru yngri en 16 ára eru þegar notaðir við upplýsingaöflun að sögn nefndarinnar, sem hefur áhyggjur af að lengja eigi tímann sem börnin eru notuð sem njósnara án þess að skráning þeirra sé endurskoðuð. Í dag er leyfilegur tími mánuður en ráðuneytið vill lengja tímann í fjóra mánuði.

Stefni andlegri og líkamlegri heilsu barnanna í hættu

„Við höfum áhyggjur af að með því að auðvelda notkun ungra einstaklinga í leynilegum aðgerðum tengdum alvarlegum glæpum um lengri tíma þá stefnum við andlegri og líkamlegri heilsu þeirra í hættu,“ sagði niðurstöðu nefndarinnar sem íhaldsþingmaðurinn Trefgarne lávarður fer fyrir.

„Unglingar eru sjaldan notaðir í leynilegum aðgerðum og aðeins þegar það er algjörlega nauðsynlegt,“ hefur Guardian eftir talsmanni Theresu May forsætisráðherra. Þetta sé m.a. gert til að koma í veg fyrir ofbeldi glæpagengja og fylgja þurfi ströngu regluverki.

Tengiliður innanríkisráðuneytisins við nefndina segir börn ekki bara notuð til að veita lögreglu upplýsingar, heldur séu þau líka látin safna upplýsingum. Segir hann að lengri tímarammi æskilegan í þeim aðstæðum þar sem barninu hafi ekki tekist að ljúka verkinu innan mánaðartímans.  

Svo skammur tími til að ná einhverri niðurstöðu geti aukið óæskilegan þrýsting á ungmennin og löggæslustofnanir.

Hafa „einstakan aðgang“

Ben Wallace, sem fer með málaflokkinn hjá ráðuneytinu, segir ungmenni hafa „einstakan aðgang að upplýsingum, ekki hvað síst í málefnum glæpagengja.

„Til að mynda getur verið erfitt að safna sönnunargögnum um glæpagengi án þess að ná að komast í raðir þeirra með notkun ungmenna,“ skrifar hann og kveður ungmennin m.a. geta gefið rannsakendum innsýn í hvernig gengjameðlimir hafi samskipti sín á milli.

Neil Woods, lögreglumaður sem starfaði áður á laun og rannsakað hefur fjölda glæpagengja kveðst vita til þess að löggæslustofnanir hafi notað börn á árum áður, en það hafi þó verið sjaldgæft.

„Þetta eru krakkar sem eru gripin í fyrsta skipti og í stað þess að bjarga þeim, þá eru þau send aftur inn,“ segir Woods og varar yfirvöld við því að með þessu kunni börnum í glæpagengjum að vera aukin hætta búin.

„Þetta mun auka ofbeldið, því um leið og gengin telja fleiri njósnara vera í sínum röðum þá munu glæpamennirnir auka þrýstingin til að tryggja að fólkið sé hræddara við þá en lögregluna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert