Húsin sökkva vegna hlýnunar

Frá Svalbarða.
Frá Svalbarða. AFP

Lagfæra þarf fjölda bygginga á Svalbarða vegna loftslagsbreytinga. Minnkandi sífreri hefur orðið til þess að mörg hús hafa skemmst.

Rannsókn á húsi í Nýja-Álasundi hefur sýnt að það er að sökkva ofan í jörðina. Í frétt norska ríkisútvarpsins segir að skemmdirnar séu margs konar. Gólf eru orðin skökk og sömuleiðis veggir. Ástæðan er hlýnandi veður.

„Ástæðan er sú að hið svokallaða virka lag í sífreranum, sem þynnist á hverju sumri, er að verða stærra og stærra. Nú er það orðið svo þunnt að veggirnir standa ekki lengur á föstu lagi sífrerans,“ hefur NRK eftir Per Erik Hanevoll. 

Norska ríkisstjórnin hefur lagt til fimmtíu milljónir norskra króna, um 650 milljónir íslenskra króna, til viðgerða í Nýja-Álasundi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert