Verður ekki ákærður fyrir baráttu gegn Ríki íslams

Liðsmaður YPG, varnarsveita kúrda, á vaktinni í Sýrlandi. Hundruð útlendinga …
Liðsmaður YPG, varnarsveita kúrda, á vaktinni í Sýrlandi. Hundruð útlendinga hafa gengið til liðs við YPG í baráttu þeirra gegn Ríki íslams. -

Ríkissaksóknari Bretlands hefur fallið frá ákærum á hendur fyrrverandi breskum hermanni sem sakaður var um að hafa barist með varnarsveitum kúrda (YPG) gegn vígasamtökum Ríkis íslams í Írak og Sýrlandi.

Til stóð að mál hermannsins, James Matthews, kæmi fyrir dómara í nóvember. Hann var ákærður fyrr á þessu ári fyrir að hafa fengið þjálfun í Írak og Sýrlandi í febrúar 2016 og að tilgangurinn hafi verið tengdur undirbúningi fyrir hryðjuverk.

Matthews var fyrsti einstaklingurinn sem fara átti fyrir dóm í Bretlandi á grundvelli hryðjuverkaákæru vegna vinnu hans með samtökum sem þegar njóta stuðnings breskra stjórnvalda.

Ríkissaksóknarinn Tom Litle sagði hins vegar í dag að það væri ekki lengur raunhæft að ætla að ná fram sakfellingu á „grundvelli sönnunargagna“.

Hundruð útlendinga m.a. frá Kanada, Frakklandi, Þýskalandi og Bandaríkjunum hafa gengið til liðs við varnarsveitir YPG í baráttu þeirra í Norður-Sýrlandi. Það sama gerði hinn íslenski Haukur Hilmarsson sem hefur verið saknað frá því í febrúar á þessu ári, en talið er að hann hafi fallið í átökum við tyrkneska herinn í Afrin-héraði.

Verjandi Matthews, Joel Bennathan, sagði skjólstæðing sinn vera „ánægðan“ með að fallið hefði verið frá ákærunum.

„Við höfum alltaf sagt að ákvörðunin að ákæra Matthews fyrir að berjast með YPG gegn Ríki íslams hafi verið stórfurðuleg og fullkomlega óréttlætanleg,“ sagði Bennathan.

„Matthews reyndi aldrei að leyna því sem hann gerði og því er stórfurðulegt að það hafi tekið ákæruvaldið tvö ár að ákæra hann og svo sjö mánuði til viðbótar áður en þeir áttuðu sig á að þeir hefðu ekki nægar sannanir til að gera það.“

Það var eftir að hann sá ljósmynd af vígamanni Ríkis íslams, þar sem hann hélt á höfði konu sem hafði verið hálshöggvin, sem Matthews ákvað að ganga til liðs við YPG.

„Þetta var það ljótasta sem ég hef séð og það hafði mikil áhrif á mig,“ sagði Matthews í heimildamynd sem birt var á Channel 4-sjónvarpsstöðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert