N-Kórea ekki hætt eldflaugagerðinni

Gervihnattamyndir benda til þess að Norður-Kórea sé að smíða tvær …
Gervihnattamyndir benda til þess að Norður-Kórea sé að smíða tvær eldflaugar í aðstöðu sinni í Sanumdong.

Svo virðist sem Norður-Kórea sé að smíða nýjar eldflaugar þrátt fyrir þíðu í samskiptum ríkisins við Bandaríkin. Washington Post hefur eftir ónefndum embættismanni að njósnagervihnettir hafi orðið varir við áframhaldandi virkni á svæðum sem notuð hafa verið til að framleiða eldflaugarnar.

Hefur Reuters-fréttastofan eftir sínum heimildamanni að óvíst sé hversu langt vinnan við flaugasmíðina er komin.

Donald Trump Bandaríkjaforseti fundaði með Kim Jong-un, leiðtoga Norður-Kóreu, í júní og var það fyrsti fundur leiðtoga þessara tveggja ríkja. Að fundinum loknum kváðust þeir Trump og Kim hafa heitið því að vinna að afvopnavæðingu kjarnavopna á Kóreuskaga. Lét Trump síðar hafa eftir sér að „ekki stafaði lengur kjarnaógn“ af Norður-Kóreu.

Heima fyrir sætti Trump hins vegar gagnrýni fyrir að veita tilslakanir án þess að fá staðfestingu á skuldbindingum Norður-Kóreu frá Kim um endalok kjarnorkuáætlunarinnar.

Washington Post greindi í gær frá því að svo virðist sem Norður-Kórea sé að smíða tvær nýjar langdrægar eldflaugar í aðstöðu sinni í Sanumdong, sem er í nágrenni höfuðborgarinnar Pyongyang.

Verksmiðjan hefur áður framleitt Hwasong-15 eldflaugina, sem er fyrsta norðurkóreska eldflaugin sem getur náð til Bandaríkjanna.

Reuters hefur eftir sínum heimildamanni að flaugin skapi þó ekki jafnmikla hættu og önnur gerð með öðrum orkugjafa myndi gera þar sem það taki langan tíma að hlaða hana.

Þá segir Reuters gervihnattamyndirnar sýna ökutæki aka til og frá verksmiðjunni, en hvergi sjáist votta fyrir eldflaugasmíð.

„Gervihnattamyndirnar af Sanumdong-aðstöðunni sýna að svæðið er virkt,“ hefur Washington Post eftir Jeffrey Lewis, kjarnorkusérfræðingi við Middlebury Institute of International Studies (MIIS).

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert