350 látnir í Indónesíu

Á svæðum á norðurhluta eyjarinnar Lombok hafa allt að 80% …
Á svæðum á norðurhluta eyjarinnar Lombok hafa allt að 80% húsa hrunið. AFP

347 hið minnsta létust í jarðskjálftanum sem reið yfir eyjuna Lombok á Indónesíu á sunnudag, að því er fram kemur á ríkismiðlinum Antara. Meirihluti þeirra látnu var í bænum Kayangan á norðurhluta eyjarinnar. Tæplega 1.500 manns slösuðust og um 165.000 hafa nú misst heimili sín vegna skjálftans sem mældist 6,9 stig.

Um 200.000 manns búa í norðurhluta Lombok, sem er fjalllent svæði en um 80% bygginga á svæðinu hafa nú hrunið. Flest dauðsföllin hafa orðið vegna húsþaka og veggja sem hafa hrunið.

Leitað í húsarústum á eyjunni Lombok.
Leitað í húsarústum á eyjunni Lombok. AFP

„Við höfum áhyggjur af að sjúkrabílar komist ekki leiðar sinnar vegna rústanna og skriðufalla,“ sagði Husni Husni, talsmaður Rauða krossins, í samtali við CNN. „Margir eru á vergangi og hafa flúið til fjalla af ótta við flóðbylgju.“

Gusti Lanang Wisnuwandana, einn björgunarmanna, segir í viðtali við ríkismiðilinn að læknar og björgunarteymi eigi í vandræðum með sjúklinga sem eru dauðhræddir við að vera innandyra. „Þau eru enn í áfalli og vilja flest ekki vera innandyra þegar við framkvæmum aðgerð. Þau vilja að við hlúum að þeim utandyra,“ segir hann og bætir við að leit standi enn yfir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert