„Langflottasti gyðingurinn í sturtuklefanum“

Svíþjóðardemókratar eru einn stærsti stjórnmálaflokkur Svíþjóðar.
Svíþjóðardemókratar eru einn stærsti stjórnmálaflokkur Svíþjóðar. Wikipedia/Frankie Fouganthin

Svíþjóðardemókratar (SD) hafa beðið tvo sveitarstjórnarmenn að yfirgefa flokkinn eftir að upplýst var um að þeir hafi lýst stuðningi við nasisma á netinu og keypt hluti á netinu af samtökum rasista, Nordic Resistance Movement.

Annar þeirra, Per Olsson, var í framboði í sveitarstjórnarkosningum í Smálöndum. Upplýst var um að hann hefði verið að kaupa muni í netverslun Nordic Resistance Movement auk þess að birta mynd af Adolf Hitler á Facebook þar sem hann vottar leiðtoga nasista virðingu sína.

Olsson hefur einnig birt færslur á Facebook þar sem segir araba vera nauðgara og barnaníðinga og mynd af Önnu Frank þar sem hann segir að hún hafi verið langflottasti gyðingurinn í sturtuklefanum.

Talsmaður SD, Michael Erlandsson, segir að Olsson hafi verið gert að segja sig úr flokknum. „Þú getur ekki verið frambjóðandi Svíþjóðardemókrata ef þú hefur þessar skoðanir og deilir slíku efni,“ segir Erlandsson í viðtali við Östra Småland.

Hinn stjórnmálamaðurinn, Mikael Bitén, var í framboði í Jämtland. Í ljós kom að hann keypt tónlist tengda áróðri hvítra þjóðernissinna og rasísk merki á netinu.

Upplýsingarnar um mennina komu fram í frétt Dagens ETC en þar kemur fram að 11 frambjóðendur SD tengjast viðskiptum með muni tengda nasistum og rasisma. Fyrr í vikunni var greint frá því að nokkrir fyrrverandi félagar Nasistaflokks Svíþjóðar (Nationalsocialistisk front – NSF) eru í framboði fyrir SD.

Í frétt sem Bogi Þór Arason skrifaði í Morgunblaðið fyrir viku kemur fram að líklega verði mjög erfitt að mynda ríkisstjórn í Svíþjóð eftir komandi þingkosningar vegna fylgisaukningar tveggja flokka, Vinstriflokksins og Svíþjóðardemókratanna, sem þykja ekki vera líklegir til stjórnarsamstarfs við aðra flokka.

Samkvæmt nýlegri könnun rannsóknafyrirtækisins Inizio fyrir dagblaðið Aftonbladet er fylgi Svíþjóðardemókratanna 18,8%, sex prósentustigum meira en í síðustu þingkosningum fyrir fjórum árum þegar flokkurinn fékk 49 þingmenn af 349. Kannanir í júní og júlí bentu til þess að Svíþjóðardemókratar fengju um 21% fylgi og yrðu næststærsti flokkur landsins, á eftir Sósíaldemókrötum, sem hafa mælst með 23-26% fylgi í sumar. Svíþjóðardemókratar hafa tvöfaldað fylgi sitt í öllum þingkosningum frá árinu 2002 en nýjasta könnunin bendir til þess að hann verði talsvert frá því að endurtaka það í kosningunum sem fara fram sunnudaginn 9. september.

Algerlega ný staða

Hinir stjórnmálaflokkarnir í Svíþjóð hafa ekki léð máls á stjórnarsamstarfi við Svíþjóðardemókratana vegna stefnu þeirra í innflytjendamálum og ásakana um að þeir ali á kynþáttahatri. Flokkurinn á rætur að rekja til hreyfinga sem voru bendlaðar við nýnasisma. Á meðal stofnenda hans var Gustaf Ekström sem gekk í flokk sænskra nasista 1932 og síðan í Waffen-SS-hersveitir þýskra nasista í síðari heimsstyrjöldinni. Flokkurinn hefur reynt að þvo af sér nasistastimpilinn undir forystu Jimmy Åkesson sem varð leiðtogi hans árið 2005.

Samkvæmt könnun Inizio er fylgi Vinstriflokksins nú 8,7%, þremur prósentustigum meira en í kosningunum fyrir fjórum árum. Verði þetta niðurstaðan verður það mesta fylgi flokksins í tuttugu ár, eða frá kosningunum árið 1998 þegar hann fékk 12% atkvæðanna.

Flokkurinn á rætur að rekja til Kommúnistaflokks Svíþjóðar sem var stofnaður árið 1921. Hann var nefndur Vinstriflokkurinn – kommúnistarnir árið 1967 en tók upp núverandi nafn árið 1990. Hann hefur aldrei átt aðild að ríkisstjórn en stutt stjórnir Sósíaldemókrata og Umhverfisflokksins frá árinu 1998, m.a. minnihlutastjórn þeirra sem er nú við völd.

mbl.is

Bloggað um fréttina