Náðu yfirráðum yfir flutningaleiðum

Stjórnarhermenn í átökum við flugvöllinn í Hodeida.
Stjórnarhermenn í átökum við flugvöllinn í Hodeida. AFP

Hersveitir stjórnvalda í Jemen með aðstoð bandalagsherja sem Sádi-Arabar leiða hafa tekið völdin á tveimur flutningaleiðum við hafnarborgina Hodeida. 

Abdulrahman Saleh Abou Zaraa, sem fer fyrir herliði sem berst við hermenn húta í Hodeida-héraði, staðfestir þetta og segir lið sitt hafa náð völdum yfir flutningaleiðinni milli hafnarborgarinnar og höfuðborgarinnar Sanaa. 

Þá hefur bandalagsher Sádi-Araba náð yfirráðum yfir annarri flutningaleið skammt frá Hodeida.

 Hútar, hópur úr norðurhluta landsins, tók völdin í mörgum hafnarborgum við Rauðahafið árið 2014. Þá þvinguðu þeir stjórnmálamenn frá höfuðborginni Sanaa og forsetann til að fara í útlegð.

Sádi-Arabar, með stuðningi Breta, Bandaríkjamanna og fleiri, hófu afskipti af borgarastríðinu í Jemen árið 2015. Síðan þá hafa um 10 þúsund manns fallið í átökum og margir búa við sult. 

mbl.is