Gagnrýndur fyrir ráð til garðyrkjumanns

Macron sagði garðyrkjumanninum unga að leita starfa í veitinga-, hótel- …
Macron sagði garðyrkjumanninum unga að leita starfa í veitinga-, hótel- og byggingageiranum. AFP

Emmanuel Macron, Frakklandsforseti, sætir nú gagnrýni fyrir ráðleggingar sínar til garðyrkjumanns sem til hans leitaði á opnum fundi Elysee-höllinni í gær og sagðist ekki geta fundið starf við sitt hæfi.

„Ég er 25 ára gamall og sæki ítrekað um og sendi ferilskrá mína. Þetta hefur ekki leitt neitt af sér,“ sagði maðurinn, en atvinnuleysi í Frakklandi er nú um 10%, yfir meðaltali Evrópusambandsríkjanna. 

„Ég veit ekki um eitt hótel, kaffihús, veitingastað eða byggingarfyrirtæki sem ekki leitar að starfsfólki þessa dagana, ekki eitt,“ sagði Macron og lagði til að ungi maðurinn leitaði ekki langt yfir skammt því í Montparnasse-hverfinu handan götunnar væri ógrynni af kaffihúsum og veitingastöðum.

Á netmiðlum er Macron nú gagnrýndur fyrir ummælin. „Fullkomlega ótengdur frönskum raunveruleika. Hvernig getur einhver sýnt jafn mikið kaldlyndi og þekkingarleysi á þrjátíu sekúndum,“ ritaði einn gagnrýnenda á Twitter.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert