Kim vonast eftir öðrum fundi með Trump

Þriggja daga heimsókn Moon Jae-in, forseta Suður-Kóreu, til Norður-Kóreu virðist …
Þriggja daga heimsókn Moon Jae-in, forseta Suður-Kóreu, til Norður-Kóreu virðist hafa haft jákvæð áhrif á samskipti Norður-Kóreu og Bandaríkjanna um afkjarnorkuvopnavæðingu á Kóreuskaga. AFP

Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu vonast eftir öðrum leiðtogafundi með Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, við fyrsta tækifæri. Frá þessu greindi Moon Jae-in, forseti Suður-Kóreu, við lok þriggja daga heimsóknar hans til Norður-Kóreu í morgun.

Trump og Kim funduðu í Singa­púr 12. júní en það var í fyrsta skipti sem leiðtog­ar Banda­ríkj­anna og Norður-Kór­eu hitt­ast. Helstu niðurstaða fundarins var að stefna að kjarnorkuvopnalausum Kóreuskaga.

Ráðamenn í Washington og Pyongyang hafa tekist á um þýðingu yfirlýsingarinnar og hvernig hún verður efnd og framkvæmd. Ríkisstjórn Trumps hefur lagt höfuðáherslu á að stjórnvöld í Norður-Kóreu segi skilið við allar kjarnorkuáætlanir og eyði kjarnorkuvopnum sínum.

Árangur virðist hafa náðst í viðræðunum eftir heimsókn Moon til Norður-Kóreu þar sem Kim hefur fall­ist á að loka end­an­lega Tongchang-ri-til­rauna­svæðinu og að þetta yrði gert í viðurvist sér­fræðinga frá þeim þjóðum sem ættu aðild að mál­inu svo þeir gætu sann­reynt að ekki væri hægt a nota svæðið.

Ráðamenn í Washington glöddust yfir niðurstöðu fundar Moon og Kim og hefur Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, boðið norðurkóreskum starfsbróður sínum til fundar í New York í næstu viku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert