Situr í gæsluvarðhaldi vistaður á geðdeild

Yahya Hassan.
Yahya Hassan. mbl.is/Golli

Danska ljóðskáldið Yahya Hassan hefur verið ákærður fyrir 40 brot og bíður réttarhalda í næsta mánuði. Þetta staðfestir lögmaður hans, Michael Juul Eriksen, við Danska ríkisútvarpið (DR).

Hassan hefur frá því 16. júlí setið í gæsluvarðhaldi vistaður á geðdeild í kjölfar þess að hann réðst á kunningja sinn með brotinni flösku og hótaði honum lífláti. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Austur-Jótlandi er Hassan m.a. ákærður fyrir þá árás sem og að hafa hótað konu lífláti á Hotel Royal í Árósum. Flest brotanna á hann að hafa framið á Austur-Jótlandi, en einnig víðar í Danmörku.

„Við söfnuðum málunum saman í ein réttarhöld, því hinn ákærði á kröfu um slíka málsmeðferð,“ segir Tanja Fogt saksóknari. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Hassan kemst í kast við lögin. Árið 2016 hlaut hann 21 mánaðar óskilorðsbundinn fangelsisdóm fyrir að hafa skotið 17 ára pilt í fótinn.

Yahya Hassan vakti verðskuldaða athygli árið 2013 þegar hann, aðeins 18 ára gamall, sendi frá sér sína fyrstu og einu ljóðabók sem varð metsölubók og seldist í 120 þúsundum eintaka í Danmörku. Í bókinni lýsti Hassan erfiðum uppvexti í innflytjendahverfi í Árósum sem einkenndist af ofbeldi, glæpum og langtímavistun á uppeldisstofnunum. Hann hristi rækilega upp í dönsku samfélagi og réðst harkalega á feðraveldið og hræsnina sem hann sá meðal múslímskra innflytjenda í Danmörku. Hassan kom hingað til lands árið 2014 til að kynna ljóðabók sína.

Ráðgert hafði verið að Hassan tæki þátt í vinsælustu ljóðafaranddagskrá Danmerkur, Digte & Lyd, í Kaupmannahöfn, Árósum, Óðinsvéum og Álaborg á næstu vikum líkt og hann gerði 2015. Af því getur ekki orðið í ljósi aðstæðna. Er þetta í annað sinn sem Hassan þarf að hætta við þátttöku, en hann átti líka að taka þátt 2016. 

mbl.is
Lladro stytta
Húsgögn, silfur borðbúnaður, B&G postulín matar og kaffistell, Lladro styttur, b...
Mynd eftir Ásgrím Jónsson
Til sölu olíumálverk eftir Ásgrím Jónsson, Húsafell, Uppl. í s. 772-2990 eða á ...
Skápur til sölu.
Furuskápur hæð,2.m breidd 0,71meter. 6000.kr. uppl.8691204....
Skrifstofuhúsnæði Bolholti 4
Til leigu er skrifstofurými, alls um 110 fermetrar, í austurenda á 5. og efstu ...