Situr í gæsluvarðhaldi vistaður á geðdeild

Yahya Hassan.
Yahya Hassan. mbl.is/Golli

Danska ljóðskáldið Yahya Hassan hefur verið ákærður fyrir 40 brot og bíður réttarhalda í næsta mánuði. Þetta staðfestir lögmaður hans, Michael Juul Eriksen, við Danska ríkisútvarpið (DR).

Hassan hefur frá því 16. júlí setið í gæsluvarðhaldi vistaður á geðdeild í kjölfar þess að hann réðst á kunningja sinn með brotinni flösku og hótaði honum lífláti. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Austur-Jótlandi er Hassan m.a. ákærður fyrir þá árás sem og að hafa hótað konu lífláti á Hotel Royal í Árósum. Flest brotanna á hann að hafa framið á Austur-Jótlandi, en einnig víðar í Danmörku.

„Við söfnuðum málunum saman í ein réttarhöld, því hinn ákærði á kröfu um slíka málsmeðferð,“ segir Tanja Fogt saksóknari. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Hassan kemst í kast við lögin. Árið 2016 hlaut hann 21 mánaðar óskilorðsbundinn fangelsisdóm fyrir að hafa skotið 17 ára pilt í fótinn.

Yahya Hassan vakti verðskuldaða athygli árið 2013 þegar hann, aðeins 18 ára gamall, sendi frá sér sína fyrstu og einu ljóðabók sem varð metsölubók og seldist í 120 þúsundum eintaka í Danmörku. Í bókinni lýsti Hassan erfiðum uppvexti í innflytjendahverfi í Árósum sem einkenndist af ofbeldi, glæpum og langtímavistun á uppeldisstofnunum. Hann hristi rækilega upp í dönsku samfélagi og réðst harkalega á feðraveldið og hræsnina sem hann sá meðal múslímskra innflytjenda í Danmörku. Hassan kom hingað til lands árið 2014 til að kynna ljóðabók sína.

Ráðgert hafði verið að Hassan tæki þátt í vinsælustu ljóðafaranddagskrá Danmerkur, Digte & Lyd, í Kaupmannahöfn, Árósum, Óðinsvéum og Álaborg á næstu vikum líkt og hann gerði 2015. Af því getur ekki orðið í ljósi aðstæðna. Er þetta í annað sinn sem Hassan þarf að hætta við þátttöku, en hann átti líka að taka þátt 2016. 

mbl.is
íbúð með sérinngang eða sérbýli óskast.
Vönduð vel menntuð hjón með tvær dætur óska eftir húsnæði í Reykjavik eða Kóp. S...
Einn sá öflugasti
JAKINN Einn sá öflugasti og verklegasti Ford 7,3 Power Stroke, Skráður frá framl...
fágætar bækur til sölu
til lsölu nokkrar fágætar bækur Sneglu-Halli eftir Símon Dalaskáld Guðmundar...
HEIMA ER BEZT
Heima er bezt tímarit Þjóðlegt og fróðlegt Tryggðu þér áskrift www.heimaerbezt.n...