Segir gögnin „skáldskap“

Cristiano Ronaldo.
Cristiano Ronaldo. AFP

Gögn sem lögfræðingar Kathryn Mayorga hafa lagt fram vegna meintrar nauðgunar portúgalska knattspyrnumannsins Cristiano Ronaldo árið 2009 eru „skáldskapur“ samkvæmt lögfræðingi Ronaldo. Samræði þeirra hafi verið með samþykki beggja aðila.

Ronaldo neitar því að hafa nauðgað Mayorga á hótelherbergi í Las Vegas sumarið 2009. Hún segir hins vegar að hann hafi nauðgað henni og hefur höfðað einkamál á hendur honum.

Mayorga seg­ir Ronaldo hafa ráðist á hana og nauðgað henni í hót­el­her­bergi í borg­inni árið 2009. Der Spieg­el birti á dög­un­um ít­ar­legt viðtal við Mayorga, þar sem hún greindi frá at­vik­inu í smá­atriðum. Ronaldo hyggst höfða mál gegn þýska tíma­rit­inu. 

Sam­kvæmt Der Spieg­el borgaði Ronaldo 375 þúsund Banda­ríkja­dali gegn því að Mayorga kæmi ekki fram með ásak­an­ir á hend­ur hon­um á op­in­ber­um vett­vangi.

Fram kemur í yfirlýsingu lögmanns Ronaldo að fjölmiðlar hafi hagað sér óskynsamlega og að gögn sem Der Spiegel hafi notað við fréttaflutning sinn af málinu séu stolin. Enn fremur kom fram að um sé að ræða stafræn stolin gögn sem auðvelt sé að eiga við.

Leslie Mark Stovall, lögmaður Kathryn Mayorga.
Leslie Mark Stovall, lögmaður Kathryn Mayorga. AFP

Bent er á að miklu magni gagna hafi verið stolið þegar fjölmörg fyrirtæki urðu fyrir tölvuárás fyrir þremur árum. Lögmaður Ronaldo telur það afar slæmt að Der Spiegel hafi fallið í gildru tölvuþrjóta.

Lögmaðurinn segir að Ronaldo neiti því ekki að hafa skrifað undir samkomulag þess efnis að ekkert yrði talað um það sem gerðist í Vegas. Það þýði þó ekki að Ronaldo sé sekur, heldur hafi hann verið að fylgja ráðgjöfum sínum.

„Ronaldo fylgdi ráðum til að reyna að binda enda á fáránlegar ásakanir gegn honum. Var það gert til að reyna að koma í veg fyrir tilraunir, eins og þessa sem er í gangi núna, þar sem reynt er að eyðileggja mannorð hans,“ kom fram í yfirlýsingunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert