„Ekki þess verðug að vera nauðgað“

Maria do Rosario.
Maria do Rosario. AFP

Brasilísk þingkona, sem var eitt sinn tjáð af forsetaframbjóðandanum Jair Bolsonaro að hún væri ekki þess verðug að vera nauðgað, segist óttast um land sitt verði hann næsti forseti Brasilíu. 

Miðað við það sem hafi komið fyrir konur óttumst við að sigur Bolsonaro verði til þess að meira ofbeldi gagnvart konum verði gert refsilaust. Þetta kemur fram í viðtali AFP-fréttastofunnar við Maria do Rosario en seinni umferð forsetakosninganna fer fram eftir 10 daga. 

Hún segir að Brasilía tróni á toppnum þegar kemur að ofbeldi gagnvart konum. Rosario er þingmaður Verkamannaflokksins.

Það var í þinginu fyrir 15 árum sem Bolsonaro sagði við Rosario „Ég myndi ekki nauðga þér þar sem þú ert ekki þess verðug.“ Þetta sagði forsetaframbjóðandinn fyrir framan sjónvarpsmyndavélarnar. Bolsonaro sagði síðar að hann hafi aðeins verið að bregðast við ummælum hennar og hún hafi sagt hann nauðgara.

En 2014 sagði hann í viðtali „hún á ekki skilið að vera nauðgað því hún er svo hræðilega ljót. Hún er ekki mín týpa. Ég myndi aldrei nauðga henni. Ég er ekki nauðgari en ef ég væri það þá myndi ég ekki nauðga henni því hún er ekki þess verðug,“ sagði Bolsonaro.

Samkvæmt upplýsingum frá samtökum sem halda utan um upplýsingar um ofbeldisbrot í Brasilíu voru 4.473 konur myrtar þar í landi í fyrra og 60.018 konum var nauðgað.

„Ímyndið ykkur hvað gerist ef hvatt verður til þess að ofbeldið haldi áfram,“ segir Rosario. 

Hægri öfgamaður­inn Jair Bol­son­aro á sitt­hvað sam­eig­in­legt með leiðtoga Banda­ríkj­anna, Don­ald Trump, og er mikill aðdáandi Trumps. „Trump er fyr­ir­mynd mín,“ sagði hann eitt sinn og að hann ætlaði sér, ef hann yrði for­seti Bras­il­íu, að vinna náið með hon­um „til góða fyr­ir bæði Bras­il­íu og Banda­rík­in“.

Bol­son­aro er 63 ára. Hann fékk 46% at­kvæða í fyrri um­ferð kosn­ing­anna og þykir allt benda til þess að hann verði næsti forseti Brasilíu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert