Aðkoman blóðug eftir að rúllustigi hrundi

Stuðningsmenn CSKA slösuðust þegar rúllustigi sem þeir hoppuðu í hrundi.
Stuðningsmenn CSKA slösuðust þegar rúllustigi sem þeir hoppuðu í hrundi. AFP

Við sáum fólk sem lá illa slasað og héldum fyrst að þetta væri eftir slagsmál,“ segir Kristinn Steinn Traustason. Hann var í hópi Íslendinga sem kom að slysi fyrir leik Roma og CSKA Moskvu í Meistaradeild Evrópu í knattspyrnu í gærkvöld. 

Hluti rúllustiga í neðanjarðarlestarstöð í miðborg Rómar hrundi en hópur stuðningsmanna CSKA hoppaði í stiganum. Um tuttugu manns slösuðust, þar af einn alvarlega.

Kristinn og félagar hans voru á bar fyrir leikinn en auk þeirra voru þar stuðningsmenn rússneska liðsins. Kristinn segist ekki vera neinn sérstakur aðdáandi Roma heldur hafi hópurinn viljað sjá Íslendingana Hörð Björgvin Magnússon og Arnór Sigurðsson leika listir sínar í Meistaradeildinni.

Hluti stuðningsmanna CSKA á vellinum í gær.
Hluti stuðningsmanna CSKA á vellinum í gær. AFP

Stuðningsmenn CSKA fóru aðeins á undan Kristni og félögum hans af barnum, þegar rúmlega tvær klukkustundir voru í að leikurinn hæfist. Til að komast á völlinn þurfti að taka neðanjarðarlest en þegar Íslendingarnir komu að lestarstöðinni var ljóst að eitthvað hafði gerst.

„Við komum í Roma búningum en Ítalir komu hlaupandi á móti okkur og sögðu að rússnesku fótboltabullurnar væru með læti og við ættum ekki að fara lengra,“ segir Kristinn um það þegar hópurinn kom að lestarstöðinni.

Hörður Björgvin Magnússon í baráttu við Edin Dzeko.
Hörður Björgvin Magnússon í baráttu við Edin Dzeko. AFP

„Við sáum mjög slasað fólk og mikið blóð. Okkur fannst skrítið að um átök hefði verið að ræða vegna þess að allir voru særðir á fótunum,“ segir Kristinn en hann komst fljótlega að því rúllustiginn á lestarstöðinni hafði gefið sig þegar stuðningsmenn CSKA hoppuðu í honum.

„Herlögreglan kom fljótlega á svæðið og lokaði stöðinni,“ segir Kristinn en Íslendingarnir tóku leigubíl á völlinn þar sem þeir horfðu á Roma sigra CSKA, 3:0. Hann segist hafa verið í talsverðu uppnámi eftir að hafa komið að slösuðu fólkinu og að aðkoman hafi verið hræðileg.

Arnór Sigurðsson með boltann í Róm.
Arnór Sigurðsson með boltann í Róm. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert