Talið að allir um borð hafi farist

Talið er að allir þeir 189 sem voru um borð í farþegaþotu lággjaldaflugfélagsins Lion Air sem fórst í hafinu við Indónesíu í nótt hafi látist. Brak hefur fundist úr þotunni þar sem hún hrapaði, persónulegar eigur fólks sem var um borð sem og líkamsleifar.

Farþegaþotan, sem var af gerðinni Boeing 737 MAX og var tekin í notkun í síðasta mánuði, hvarf af ratsjám 13 mínútum eftir flugtak í höfuðborg Indónesíu, Jakarta. Skömmu áður hafði flugstjórinn óskað eftir því að fá að snúa aftur til borgarinnar, en þotan var á leið til indónesísku borgarinnar Pangkal Pinang. Ekki er vitað hvað olli slysinu.

AFP

Samkvæmt vefsíðum með upplýsingum um ferðir flugvéla var hraði farþegaþotunnar aukinn áður en hún missti flughæð rétt áður en samband við hana rofnaði. Haft er eftir Bambang Suryo Aji, framkvæmdastjóra björgunarmála, að líklegt sé að allir um borð í þotunni hafi farist í ljósi þess að einungis líkamsleifar hafi fundist til þessa.

Leit stendur yfir að farþegaþotunni og þeim sem um borð voru og eru um 150 manns á staðnum, þar af 40 kafarar en talið er að þotan sé á um 30-40 metra dýpi. Þotan fékk nýverið ekki leyfi til þess að fara í loftið í borginni Balí vegna vélarbilunar sem síðan var löguð að sögn Lion Air áður en henni var flogið aftur til Jakarta.

Fjöldi ættingja þeirra sem um borð voru hefur safnast saman á flugvellinum í Pangkal Pinang þar sem þeir hafa beðið frétta af ástvinum sínum á milli vonar og ótta. Af þeim 189 sem voru um borð var 181 farþegi, þar af þrjú börn, og átta manna áhöfn.

AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert