Íbúar ósáttir við að hryllingsmynd af bænum

Mynd af malarvegi og niðurníddum húsum í einni götu Jaywick …
Mynd af malarvegi og niðurníddum húsum í einni götu Jaywick Sands með orðunum: „Hjálpið Trump forseta að halda Bandaríkjunum blómlegum“ prýðir auglýsinguna. Ljósmynd/Facebook

Íbúar í breska þorpinu Jaywick Sands eru ósáttir með að einn frambjóðenda bandaríska Repúblikanaflokksins noti mynd af götu bæjarins til að draga upp hryllingsmynd af því sem bíði Bandaríkjamanna sigri Demókratar í þingkosningunum í næstu viku.

Mynd af malarvegi og niðurníddum húsum í einni götu Jaywick Sands með orðunum: „Hjálpið Trump forseta að halda Bandaríkjunum blómlegum“ prýðir auglýsingu sem beint er gegn demókratanum Bill Foster, mótframbjóðenda repúblikanans dr. Nick Stella.

Stella birti auglýsinguna á Facebook-síðu sinni. Sagði hann þar atkvæði fyrir Foster vera atkvæði fyrir Nancy Pelosi, fyrrverandi þingforseta demókrata. „Við getum ekki lent aftur í nauðungaruppboðum, atvinnuleysi og efnahagskreppu,“ sagði Stella í færslunni.

Hafa íbúar og sveitastjórnvöld í Essex gagnrýnt auglýsinguna, en Jaywick Sands var á árunum 2010-2015 talinn sá hluti Bretlands sem var í hvað mestri niðurníðslu samkvæmt skýrslu breskra stjórnvalda. Undanfarin ár hafa sveitastjórnvöld í Essex hins vegar eytt milljónum punda í að lagfæra vega- og lagnakerfi bæjarins.

Paul Honeywood, sem hefur málefni Jaywick á sinni könnu í bresku stjórninni, sagði ömurlegt þessar gömlu myndir væru notaðar í pólitískum tilgangi. „Ég veit að margir íbúar Jaywick Sands verða hneykslaðir,“ sagði hann og kvað bæinn vera á uppleið.

„Jaywick er virkilega á uppleið,“ sagði Penelope Read sem bjó til heimildamynd um bæinn. „Sveitastjórnvöld hafa virkilega reynt að bæta hlutina og Jaywick er á uppleið. Það gerir mig því virkilega reiða þegar hann fær svona slæma kynningu.“

Raquel Mitchell, kosningastjóri Stella, sagði aldrei hafa verið ætlunina að koma óorði á bæinn með auglýsingunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert