Tekinn af lífi í rafmagnsstól

Zagorski verður tekinn af lífi á miðnætti.
Zagorski verður tekinn af lífi á miðnætti. AFP

Karlmaður frá bandaríska ríkinu Tennessee, sem hlaut dauðadóm fyrir tvöfalt morð, verður tekinn af lífi í rafmagnsstól á miðnætti í kvöld. Hann bað sérstaklega um að fá að deyja á þennan hátt frekar en að fá banvæna sprautu.

Yfirvöld í Tennessee ákváðu fyrr í mánuðinum að fresta aftöku hans, á alþjóðlegum degi gegn dauðarefsingum.

Nema ákvörðun verði tekin núna fyrir miðnætti um að fresta aftökunni verður Edmund Zagorski, 63 ára, fyrsti bandaríski fanginn í fimm ár sem verður tekin af lífi í rafmagnsstól. Hann var dæmdur til dauða árið 1983 fyrir að hafa drepið tvo menn sem hann lokkaði inn í skóg eftir að hafa lofað því að selja þeim marijúana. Lík þeirra fundust tveimur vikum síðar. Mennirnir höfðu verið skotnir og skornir á háls.

Ljósmynd af Edmund Zagorski sem var tekin 10. október.
Ljósmynd af Edmund Zagorski sem var tekin 10. október. AFP

Lögmenn Zagorski áfrýjuðu aftökunni til Hæstaréttar Bandaríkjanna á síðustu stundu og óskuðu eftir því að henni yrði frestað. Áður hafði áfrýjunarbeiðnum þeirra á lægra dómstigi verið hafnað.

Aðeins níu ríki í Bandaríkjunum nota rafmagnsstól er þau framfylgja dauðadómum. Þetta verður fyrsta aftakan í Tennessee í slíkum stól í ellefu ár. Stóllinn var skoðaður 10. október og gerðar voru prófanir á honum tveimur dögum síðar og ætti hann því að virka sem skyldi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert