Mikilvægt að halda öldungadeildinni

Bandaríska þinghúsið í Washington í morgun.
Bandaríska þinghúsið í Washington í morgun. AFP

Miklu skiptir fyrir Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, að Repúblikanaflokkurinn hafi haldið meirihluta í öldungadeild Bandaríkjaþings í þingkosningunum sem fram fóru í gær þrátt fyrir að hafa tapað meirihluta sínum í fulltrúadeildinni. Ekki síst vegna þeirra rannsókna sem verið hafa í gangi á meintum tengslum kosningateymis hans við rússneska ráðamenn.

Meirihluti Repúblikanaflokksins í öldungadeildinni skiptir Trump einnig máli þar sem það þýðir að repúblikanar verða áfram í aðstöðu til þess að skipa íhaldsmenn í alríkisdómstóla sem er háð samþykki öldungadeildarinnar. Þar með talið í Hæstarétt Bandaríkjanna komi upp sú staða að skipa þurfi hæstaréttardómara á meðan aðstæður eru með þeim hætti. 

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. AFP

Hins vegar er ekki nóg með að repúblikanar hafi haldið meirihluta sínum heldur bættu þeir við sig tveimur þingmönnum sem hefur ekki gerst á sama tíma og þeir hafa haft forsetann síðan árið 2002, þegar George W. Bush var forseti, en fara þarf aftur til ársins 1970, þegar Richard M. Nixon var í Hvíta húsinu, til að finna dæmi um jafn góða niðurstöðu.

Með meirihluta í fulltrúadeildinni er ljóst að Demókrataflokkurinn gert Trump erfitt fyrir. Demókratar geta stöðvað lagafrumvörp frá Trump eða gert miklar breytingar á þeim og fengið eigin mál samþykkt. Hins vegar þurfa þau mál sem samþykkt eru í fulltrúadeildinni einnig að fá samþykki öldungadeildarinnar þar repúblikanar munu áfram ráða ferðinni. 

Geta sett völdum Trumps ýmsar skorður

Fram kemur á fréttavefnum The Hill að Repúblikanaflokkurinn muni að minnsta kosti hafa 52 þingmenn í öldungadeildinni af þeim 100 sem þar eiga sæti en ekki hefur verið lokið við að telja atkvæði í öllum kjördæmum. Forystumenn demókrata hafa þegar lýst því yfir að þeir ætli sér að nota meirihlutann í fulltrúadeildinni til að veita Trump nauðsynlegt aðhald.

Repúblikanar hafa haft meirihluta í fulltrúadeildinni undanfarin átta ár. Fram kemur á fréttavef bandarísku sjónvarpsstöðvarinnar CNN að meirihluti demókrata þýði að þeir fái meðal annars formenn þingnefnda, fyrir utan forseta fulltrúadeildarinnar, sem geti sett völdum Trump ýmsar skorður sem fulltrúar repúblikana hafi aldrei gert tilraun til. 

reiknað er með að demókratinn Nancy Pelosi verði forseti fulltrúardeildarinnar.
reiknað er með að demókratinn Nancy Pelosi verði forseti fulltrúardeildarinnar. AFP

Fáeinar mínútur höfðu liðið, segir í fréttinni, frá því að ljóst þótti að Demókrataflokkurinn hefði tryggt sér meirihluta í fulltrúadeildinni áður en áhrifamenn innan flokksins fóru að senda frá sér yfirlýsingar um að nú yrði látið sverfa til stáls. Þannig yrði meðal annars gerðar rannsóknir á viðskiptahagsmunum Trumps, þar á meðal skattaskýrslum hans.

„Hann mun læra að hann er ekki yfir lögin settur,“ sagði Jerrold Nadler, þingmaður demókrata, í samtali við CNN en gert er ráð fyrir að hann muni verða formaður dómsmálanefndar fulltrúadeildarinnar. Meirihluti demókrata í fulltrúadeildinni þýðir ennfremur að heilbrigðisstefna Obama verður ólíklega aflögð úr þessu.

Gætu gengið of langt í gagnrýni á Trump

Með meirihluta í fulltrúadeildinni gæti Demókrataflokkurinn einnig sett af stað ferli sem gæti leitt til þess að Trump yrði komið frá völdum verði talin ástæða til þess í kjölfar rannsóknar saksóknarans Roberts Mueller á meintum tengslum kosningateymis forsetans við rússnesk stjórnvöld. Hins vegar þyrfti til þess 2/3 atkvæða í öldungadeildinni.

Demókratar fagna í Nevada-ríki.
Demókratar fagna í Nevada-ríki. AFP

Hins vegar segir í fréttinni að ef demókratar fara of varlega í þessum efnum gæti það komið niður á fylgi þeirra en samkvæmt skoðanakönnunum séu 77% demókrata hlynntir því að sett verði af stað umrætt ferli og reynt að koma Trum frá völdum. Jafnvel þó það tækist myndi varaforsetinn Mike Pence taka við sem demókrötum þykir ekki betri kostur.

Ein af áskorunum Demókrataflokksins er að sögn CNN að ganga ekki of langt í andstöðu sinni gegn Trump. Þekkt sé að forverar hans, líkt og Barack Obama og Bill Clinton, hafi tekist að nýta sér slíkt í því skyni að tryggja sér endurkjör í forsetaembættið. Trump þyki fátt betra en að finna sér nýja óvini til þess að þjappa saman stuðningsmönnum sínum.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert