Miklar kröfur um „fullkominn líkama“

Orbach segir að líkamsdýrkun sé markaðssett í gegnum smáforrit fyrir …
Orbach segir að líkamsdýrkun sé markaðssett í gegnum smáforrit fyrir börn allt niður í sex ára aldur. AFP

Stúlkur og ungar konur eru undir meiri pressu nú en nokkru sinni áður til að hafa hinn fullkomna líkama í umhverfi þar sem allt stjórnast af samfélagsmiðlum. Þetta segir sálfræðingurinn og metsöluhöfundurinn Susie Orbach. Hún segir að feministar á áttunda áratugnum hefðu ekki getað ímyndað sér aðstæður kvenna eins og þær eru í dag.

Nú, fjörtíu árum eftir að bók hennar „Fat is a Feminist Issue“, var gefin út segir hún að konur séu stöðugt að reyna að þóknast kröfum samfélagsins sem birtast í áhrifavöldum á netinu. Reynt væri að höfða til stúlkna allt niður í sex ára aldur í því skyni að láta þær hugsa um lýtaaðgerðir, oft af fyrirtækjum sem hagnast á því að stúlkur séu óöruggar með líkama sinn.

Líkamsdýrkun markaðssett fyrir börn 

„Þetta er mun, mun verra heldur en við gátum séð fyrir,“ segir Orbach í samtali við AFP, en hún var viðstödd bókmenntahátíð í Hong Kong á dögunum þar sem hún kynnti nýja bók sína. 

Orbach, sem var m.a. sálfræðingur Díönu prinsessu, hefur verið hluti af nýlegri herferð sem miðar að því að fá tæknirisana Apple, Google og Amazon til þess að fjarlægja lýtaaðgerðarsmáforrit sem hönnuð eru fyrir grunnskólastúlkur, þar sem hægt er að breyta teiknimyndapersónum, m.a. með varafyllingu. 

„Það er alls konar iðnaður sem hagnast og gengur á óöryggi stúlkna og kvenna,“ segir Orbach. „Við erum svo sjálfmiðuð nú á dögum að við framleiðum líkama okkar í stað þess að lifa á þeim. 

Susie Orbach, sálfræðingur og metsöluhöfundur.
Susie Orbach, sálfræðingur og metsöluhöfundur. AFP

Væntingar til líkama kvenna óraunhæfar

Orbach hefur talað um frelsið sem konur fundu fyrir árið á sjöunda áratugnum þegar þær fóru að benda á hlutgerningu fegurðarsamkeppna og stíga upp gegn væntingum til líkama kvenna. „Þá byrjuðu væntingarnar um 18 ára aldur, ekki við sex ára aldur. Stúlkur og strákar spurðu ekki hvort þau væru með magavöðva eða kvörtuðu undan því að vera of feit þegar þau voru sjö ára,“ segir Orbach.

Þá segir hún að ofþyngd megi að hluta rekja til matariðnaðarins, en að einnig megi rekja hana til óraunhæfra krafna um líkamsvöxt kvenna. „Svo lengi sem þú ert með eina ráðandi birtingarmynd af fegurð, hreysti eða góðu formi sem er allsráðandi og úti um allt, þá verður alltaf fólk sem er í uppreisn gegn slíku,“ segir Orbach.

Þá séu ungar konur hvattar til þess að sjá líkama sinn sem vörumerki og vera áhrifavaldar fyrir aðra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert