Verða að taka á innflytjendamálunum

Hillary Clinton, fyrrverandi forsetaframbjóðandi í Bandaríkjunum.
Hillary Clinton, fyrrverandi forsetaframbjóðandi í Bandaríkjunum. AFP

Evrópuríki þurfa að taka innflytjendamálin föstum tökum til þess að bregðast við vaxandi ógn frá stjórnmálaflokkum á hægri væng stjórnmálanna sem gera út á lýðhyggju (e. populism). Þetta segir Hillary Clinton, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, í samtali við breska dagblaðið Guardian.

Clinton, sem einnig var forsetaframbjóðandi bandarískra demókrata árið 2016 gegn Donald Trump, segir að forystumenn Evrópuríkja verði að senda út sterkari skilaboð um að ríki þeirra „geti ekki haldið áfram að veita hæli og stuðning“.

Lofaði hún góðmennsku Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, þegar þýsk stjórnvöld leyfðu miklum fjölda hælisleitenda að koma til landsins en sagði málaflokkinn valda reiði hjá almenningi og stuðla að því að stjórnmálamenn eins og Trump kæmust til valda.

„Ég tel að Evrópuríki verði að ná tökum á innflytjendamálunum vegna þess að þetta er það sem kveikir neistann,“ sagði Clinton. Sagði hún ljóst að Evrópuríki hefðu gert það sem hægt væri að ætlast til af þeim og yrðu að senda út skýr skilaboð um að komið væri á endastöð í þeim efnum.

mbl.is