Hvað er að gerast með selina við Hawaii?

Sandvíkurselur (e. monk seal) með ál í nösinni.
Sandvíkurselur (e. monk seal) með ál í nösinni. Ljósmynd/Rannsóknarstofnun sandvíkursela á Hawaii

Selir af tegund í útrýmingarhættu hafa upp á síðkastið skilið vísindamenn eftir orðlausa. Ástæðan er sú að þeir hafa sést með ála fasta upp í nösum sínum.

Í frétt CNN um málið segir að selirnir sem um ræðir haldi til við Hawaii. Þeir eru sandvíkurselir (e. monk seals) og njóta verndar vegna fágæti síns. NOAA, banda­ríska Haf- og lofts­lags­stofnunin, birti mynd af einum sandvíkursel á Facebook-síðu sinni á mánudag þar sem sjá mátti langt kvikindi lafa út úr hægri nös hans. Ekki er um einsdæmi að ræða. Fleiri selir af þessari tegund hafa sést með ála úr nösunum undanfarið. Fyrsta tilfellið sást sumarið 2016. 

Sandvíkurselur er ein fágætasta selategund heims. Selirnir halda aðallega til við átta afskekktar eyjur sem tilheyra Hawaii-eyjaklasanum. Árið 2016 taldi stofninn 1.427 dýr.

Í færslu NOAA sagði að það séu ungir selir sem hafi sést með ála út úr nefinu. Vísindamenn standa á gati um ástæður þessa.

„Við höfum fylgst gaumgæfilega með sandvíkurselum í fjóra áratugi og á öllum þeim tíma höfum við ekki séð neitt þessu líkt,“ segir Charles Littnan, sem fer fyrir rannsóknum á selategundinni við Hawaii. Hann segir að nú hafi selir með ála í nösunum sést þrisvar til fjórum sinnum og „við höfum ekki hugmynd um af hverju“.

Vísindamenn NOAA hafa sett fram tvær kenningar. Önnur er sú að álarnir ráðist á selina með þessum hætti er þeir eru að leita sér að æti á kóralrifjunum þar sem fiskarnir fela sig. Hin er sú að selirnir gleypi álana lifandi sem svo skríði út um nasir þeirra. 

Littnan segir að álarnir hafi reynst vera á bólakafi í nefjum selanna. Þetta er vitað þar sem starfsmenn verndarstofnunar sela við eyjarnar hafa fjarlægt álana með handafli. Í nýjasta tilvikinu var selnum haldið og állinn togaður úr nefi hans. Alls hafi aðgerðin tekið hálfa mínútu. 

Vísindamennirnir segja að áll í nefi sels geti stofnað lífi þess síðarnefnda í hættu. Selirnir eru þegar útsettir fyrir eitruðum þörungum sem sífellt verða útbreiddari á kóralrifjunum við Hawaii. Sé áll í nefi þeirra getur það hamlað færni þeirra í að kafa og leita sér ætis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert