Morðin mögulega tengd hryðjuverkum

Morðin voru framin í Atlasfjöllum í Marokkó og fundust lík …
Morðin voru framin í Atlasfjöllum í Marokkó og fundust lík skandinavísku vinkvennanna á mánudag. mbl.is/Snorri Guðjónsson

Lögregluyfirvöld í Marokkó segja að morðin á skandinavísku vinkonunum Louisu Vesterager Jespersen og Maren Ueland séu mögulega tengd starfsemi hryðjuverkahópa. Danska ríkisútvarpið DR greinir frá þessu og vísar til fréttatilkynningar ákæruvaldsins í Marokkó, sem birt var á Twitter-síðu marokkóska fjölmiðilsins 2M í kvöld. Talið er að morðin hafi mögulega verið tekin upp.

Samkvæmt tilkynningunni er maðurinn sem þegar hefur verið handtekinn vegna gruns um morðin liðsmaður í öfgasamtökum af einhverju tagi. Þriggja manna til viðbótar er enn leitað í tengslum við glæpinn.

Norski fjölmiðillinn Verdens Gang fullyrðir í kvöld að allir fjórir mennirnir séu fylgismenn hryðjuverkasamtakanna Ríki íslams og að þeirra þriggja sem eru á flótta undan réttvísinni sé leitað með þyrlu í útjaðri borgarinnar Marrakesh. 

Lögreglan í Marókkó er einnig með myndskeið til rannsóknar, sem hefur verið í dreifingu á samfélagsmiðlum. Á téðu myndskeiði má að sögn sjá hvar konu er ráðinn bani.

Borgaraþjónusta danska utanríkisráðuneytisins staðfestir við DR að það komi heim og saman að verið sé að skoða hvort morðin tengist hryðjuverkum á einhvern hátt og að umrætt myndskeið hafi verið tekið til skoðunar hjá PET, dönsku öryggis- og leynilögreglunni, sem kannar uppruna þess og leitar staðfestingar á því hvort skandinavísku konurnar séu sjáanlegar á myndskeiðinu.

Aðstandendur Jespersen og Ueland hafa verið látnir vita af þessari þróun mála. Lögmaður sem starfar fyrir fjölskyldu Ueland gagnrýnir, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK, að þetta myndband, sem dreifst hefur um alnetið, sé tengt við morðin áður en staðfest hefur verið með óyggjandi hætti að svo sé.

DR hefur rætt við Adnane Bennis, sem er blaðamaður hjá fjölmiðlinum Morocco World News. Hann hefur séð myndskeiðið, en segir það óskýrt. Hann seist hafa séð eina skolhærða konu, en myndskeiðið hafi verið of óskýrt til að hann gæti borið kennsl á hana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert