Telja ótímabært að yfirgefa Sýrland

Donald Trump Bandaríkjaforseti. Ákvörðun hans að kalla bandaríska herinn heim …
Donald Trump Bandaríkjaforseti. Ákvörðun hans að kalla bandaríska herinn heim frá Sýrlandi hefur sætt gagnrýni. AFP

Sú ákvörðun Donald Trumps Bandaríkjaforseta að kalla allar hersveitir Bandaríkjahers heim frá Sýrlandi hefur mætt verulegri gagnrýni heima og erlendis.

Trump sagði á Twitter í gær búið væri að sigra Ríki íslams í Sýr­landi og að það hafi verið eina ástæðan fyr­ir veru herliðsins þar. Sagði Trump, sem lengi hefur heitið því að draga herlið Bandaríkjanna til baka frá Sýrlandi, að tímabært væri að kalla hermennina heim eftir „sögulegan sigur“.

Helstu bandamenn Bandaríkjanna í Sýrlandsstríðinu, sem og æðstu ráðamenn Repúblikanaflokksins hafa hins vegar dregið þessar fullyrðingar forsetans í efa og segja þetta geta leitt til endurvakningar vígasamtakanna.

BBC segir Bandaríkjaher hafa átt þátt í því að losa stóran hlut norðausturhluta Sýrlands við vígamenn Ríkis íslams, en hópa þeirra sé engu að síður að finna á nokkrum stöðum á svæðinu.

Repúblikaninn og öldungadeildarþingmaðurinn, Lindsey Graham, sem hefur verið einn stuðningsmanna Trumps, sagði ákvörðunina að draga herliðið til baka vera „risastór Obamaleg mistök“.

Bresk stjórnvöld hafa einnig dregið þá fullyrðingu Trumps í efa að búið sé að sigra Ríki íslams. „Mikið verk er enn óunnið og við megum ekki missa sjónir á ógninni sem af þeim [Ríki íslams] stafar,“ sagði í yfirlýsingu frá breska utanríkisráðuneytinu.

Í yfirlýsingu frá bandaríska varnamálaráðuneytinu segir að Bandaríkjaher sé nú að fara „yfir á næsta stig hernaðar“ en veitti engar frekari upplýsingar um við hvað væri átt.

mbl.is