Fá leyfi til að koma á land á Möltu

Stjórnvöld á Möltu hafa náð samningum við átta ríki Evrópusambandsins um að ríkin skipti á milli sín 49 hælisleitendum sem hafa nú verið fastir á hafi úti vikum saman.

Joseph Muscat, forsætisráðherra Möltu, segir Þýskaland, Frakkland, Portúgal, Írland, Rúmeníu, Lúxemborg, Holland og Ítalíu hafa fallist á að taka við fólkinu, sem hefur verið strandglópar um borð í skipum hjálparsamtaka. Fá hælisleitendurnir nú að koma á land á Möltu, en yfirvöld þar í landi sem og á Ítalíu höfðu áður neitað skipunum um að leggjast þar að bryggju.

BBC segir samkomulagið einnig taka til 249 hælisleitenda til viðbótar sem þegar dvelja á Möltu.

Hælisleitendurnir 49 hafa verið um borð í tveimur björgunarskipum. 32 þeirra var bjargað úti fyrir strönd Líbýu 22. desember á síðasta ári og 17 manns var bjargað 29. desember. BBC segir lítið hafa verið eftir af matar- og drykkjarföngum er samkomulagið náðist.

Frans páfi biðlaði nú um helgina til ráðamanna Evrópu að sýna „samstöðu“ og veita hælisleitendunum heimild til að komast í „örugga höfn“.

Fagnaði samstöðu og skilningi

Muscat sagðist fagna „samstöðunni og skilningnum“ sem ESB-ríkin sýndu og kvað hælisleitendurna verða flutta eins fljótt og auðið er til ríkjanna átta. Hann varði hins vegar þá ákvörðun sína að leyfa skipunum ekki að leggjast að bryggju fyrr en yfirvöld á Möltu höfðu heimilað þeim að leita skjóls í landhelgi undan veðrum og vindum og að sækja þangað birgðir. Muscat benti þá á að hælisleitendurnir hefði ekki verið í lögsögu Möltu er þeim var bjargað, heldur úti fyrir strönd Líbýu.

„Malta er mjög lítið ríki,“ sagði hann. „Okkur er eðlislægt að hjálpa þeim sem eru í vanda, en sem forsætisráðherra þá get ég ekki skotist undan þeirri ábyrgð að tryggja öryggi okkar og hagsmuni.“

Malta mun taka við 78 af hælisleitendunum 298. Átta Evrópuríki munu taka svo taka við 176 þeirra og 44 til viðbótar verða sendir aftur til Bangladess.

Fögnuður greip um sig meðal hælisleitendanna er þeir fréttu af …
Fögnuður greip um sig meðal hælisleitendanna er þeir fréttu af væntanlegri landgöngu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert