Hótanir, leiðbeiningar og kúgun

Heimili hjónanna Tom Hagen og Anne-Elisabeth Falkevik Hagen.
Heimili hjónanna Tom Hagen og Anne-Elisabeth Falkevik Hagen. AFP

Bréfið sem fannst inni á heimili Anne-Elisabeth og Tom Hagen eftir að henni var rænt getur skipt sköpum í rannsókn málsins segja sérfræðingar sem norska ríkissjónvarpið hefur leitað til. Þar er að finna hótanir, leiðbeiningar og kröfu um greiðslu lausnarfjár. 

Telja sérfræðingar að í bréfinu megi lesa faldar vísbendingar um hverjir standi á bak við ránið á Anne-Elisabeth og hvaðan þeir eru. 

Per Angel, sem er sérfræðingur í tæknimálum í sakamálarannsóknum og fyrrverandi yfirmaður tæknimála hjá norsku rannsóknarlögreglunni Kripos, segir að allt þetta sé til rannsóknar hjá Kripos.

Sérfræðingar benda á að bara pappírsgerðin geti gefið vísbendingar um hvaðan mannræningjarnir eru. 

Rithandarsérfræðingurinn Reidun Wilhelmsen, sem hefur starfað með Kripos og er með víðtæka reynslu á þessu sviði, segir að fyrsta aðgerð sé að rannsaka pappírinn í smásjá.  Síðan eru blöðin rannsökuð ítarlega, svo sem þykkt og eins hvort um einhver merki um skrift eftir penna eða blýant sé að finna  sem hefur afritast þegar pappírsörkin hefur legið undir öðrum pappír sem skrifað hefur verið á. Eins er fingrafara leitað.

Anne-Elisa­beth Fal­kevik Hagen hvarf af heim­ili sínu í Lørenskog 31. októ­ber og var fyrst greint frá því opinberlega í síðustu viku. Engar vísbendingar hafa komið fram um hvar hana er að finna.

mbl.is